14.05.1932
Efri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (1989)

294. mál, frystihús á kjötútflutningshöfnum

Pétur Magnússon:

Mér er það fullljóst, að ef samvinnufélög, svo sem kaupfélög, eða einstaklingar reisa sér kjötfrystihús af eigin rammleik, þá nái það ekki nokkurri átt, að Alþ. geri kröfu til þess að skipa fyrir, hverjir megi nota frystihúsið. En hér er ekki um það að ræða, heldur hitt, hvort ríkið eigi að setja skilyrði um notkun mannvirkja, sem því er ætlað að styrkja að allverulegum hluta, með því að ábyrgjast byggingarkostnað þeirra. Þegar nú ekki er um minni skerf að tala frá ríkisins hálfu en þetta, þá sýnist það ekki nema eðlilegt og sanngjarnt, að ríkið krefjist þess, að hver borgari hafi jafnan rétt til þessara hlunninda.

Ég hefi kannske ekki tekið það nógu skýrt fram í fyrri ræðu minni, að ég ætlaðist til, að utanfélagsmönnunum væri gert að skyldu að borga kostnað við rekstur frystihússins hlutfallslega við notkunina. En vitanlega var það hugsunin hjá mér. Ég ætlaðist ekki til, að utanfélagsmenn yrðu á neinn hátt betur settir.

Mér þykir það ákaflega undarlegt, ef það er rétt hjá hv. 2. þm. Eyf., að skilyrði sem þetta þurfi að verða til þess að gera frv. gagnslaust. Ef rétta skilyrði er svo fráfælandi, að kaupfélögin muni ekki sjá sér fært að nota heimildina, eins og er að dómi hv. þm., þá skil ég ekki, í hverju það á að liggja. Þegar allir eiga að bera jafnan kostnað af rekstrinum, hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki, þá skil ég ekki, hvað það getur verið, sem er svo fráælandi við þetta ákvæði. Mér sýnist heildarútkoman ætti að verða alveg sú sama.

Hitt get ég skilið, að ýmsum þeim, sem gera það að kappsmáli að ná sem flestum inn í kaupfélögin, muni falla vel þessi lagaþvingun, sem með frv. óbreyttu væri sett á almenning í sveitum landsins til þess að ganga inn í kaupfélögin, því ekkert er það annað en þvingun á menn, ef þeir eru látnir velja um að ganga í félagsskapinn eða að verða af þeim hagsbótum, sem frystihúsin veita. Ég efast samt um, að kaupfélagsskapnum sé gerður nokkur greiði með þessu; ég hygg einmitt, að hann þróist bezt frjáls og þvingunarlaus.

Annars sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að framleiðendafélög séu stofnuð til að koma upp frystihúsunum. Ég fæ eigi betur séð en að húsin fengju alveg sömu þýðingu fyrir kjötframleiðendur, þó sú tilhögun væri höfð á, eins og þó kaupfélögin fái nokkurskonar einokun á þessum tækjum.