14.05.1932
Efri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (1992)

294. mál, frystihús á kjötútflutningshöfnum

Einar Árnason [óyfirl.]:

Ég vil aðeins taka það fram til viðbótar því, sem sagt var aðan, út af heim frystihúsum, sem fyrirhugað er að byggja, en það er á Vopnafirði, Borðeyri og Stykkishólmi, að ef athuguð er kjötframleiðsla á þessum stöðum, þá kemur það í ljós, að öll kjötverzlun og verzlun með innlendar vörur er í höndum kaupfélaganna. Þess vegna er það eðlilegt, að þessi félög hafi full umráð yfir húsunum, og ég vil taka það fram út af því, að einstökum óviðkomandi mönnum sé heimilaður aðgangur að slíkum búum, að auðvitað geti komið til mála að gera ráð fyrir, eins og hv. flm. brtt., að enginn ágreiningur sé um gjaldið fyrir slíka notkun. En þessir menn mega ekki hafa mikinn íhlutunarrétt um notkun hússins. Þetta eru menn, sem koma e. t. v. eitt og eitt ár, bera enga ábyrgð og eru hlaupnir burt hvenær sem vera skal. En félagið sjálft hefir tekið á sig ábyrgð á rekstrinum og hefir ábyrgzt að greiða þær skuldir, sem stofnað hefir verið til vegna byggingarinnar, en hinir bera ekki ábyrgð á neinu og hafa ekki tekið á sig neinar skyldur. Nú er það svo, að samkv. samvinnulögunum verður að skoðast sem menn eigi almennt rétt á að ganga inn í samvinnufélögin, og með því að fara þá leið er opinn vegur að því að njóta þeirra hlunninda, sem frystihúsin veita, svo framarlega sem um hlunnindi er þar að ræða.

Þá er enn eitt atriði í seinni ræðu hv. 4. landsk. — um framleiðlufélögin. Hann lét í ljós þá skoðun, að heppilegra væri, að félögin væru tvennskonar: Framleiðslufélögin sér og verzlunin með útlendar vörur sér. Þessi skoðun kemur alveg í bág við reynslu allra þeirra manna, sem lengst og mest hafa starfað að samvinnumálum hér á landi. Ég hefi nokkra reynslu af þessu, en það eru ýmsir menn, sem hafa hana meiri og eru glöggskyggnari, og það er eindregin skoðun þeirra, að óheppilegt sé að kljúfa þannig starfsemina. Annars liggur það fyrir utan það mál, sem hér er um að ræða, svo að ég ætla ekki að fara neitt út í það. Þarna kemur fram mjög ákveðinn skoðanamunur á þessu máli.