31.03.1932
Neðri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (1999)

215. mál, millisíld úr búi Síldareinkasölu Íslands

Haraldur Guðmundson:

Ég geri ráð fyrir, að þetta frv. verði sent til sjútvn., eins og hv. flm. mæltist til. Vil ég því benda hv. n. á, að frá Seyðisfirði fóru um 40 tunnur millisíldar í vörzlum síldareinkasölunnar skömmu áður en hún var afnumin. Ég geri ráð fyrir því, ef til þess kemur, að hv. sjútvn. leggi til, að síld Norðlendinga verði greidd eins og frv. fer fram á, þá verði síldin frá Seyðisfirði látin fylgja með. Annars skal ég taka það fram, að mér virðist eðlilegast, að efni þessa frv. og frv. sama flm. um greiðslu söltunarlauna úr búi einkasölunnar, hefði verið flutt sem brtt. við frv. hæstv. stj. um staðfesting bráðabrigðalaganna um afnám síldareinksölunnar. Fæ ég með engu móti séð, að ekki megi hagga við þessum lögum, jafnvel þótt þau séu komin frá hæstv. stj. Er ekkert einsdæmi, að hreyft hafi verið við slíkum lögum. Mér er nú sagt af einum hv. þm., að ekki sé hægt að breyta bráðabirgðalögum; þau verði annaðhvort að samþ. eða fella óbreytt. Ég hygg, að þetta sé eigi rétt, en geri ráð fyrir, að hv. n. gangi úr skugga um, hvort svo er.

Vil ég þá mælast til þess, að n. taki ábendingar mínar til athugunar og bæti ákvæðum um Austfjarðasíldina inn í frv., eða brtt. við bráðabirgðalögin.