04.05.1932
Neðri deild: 67. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

215. mál, millisíld úr búi Síldareinkasölu Íslands

Frsm. meiri hl. (Guðbrandur Ísberg):

Frv. það, sem hér liggur fyrir og flutt er af mér og hv. 1. þm. Eyf., hefir sjútvn. haft til athugunar, og hafa 4 af 5 nm. lagt til, að það verði samþ. með nokkrum breyt., sem er að finna á þskj. 455. Fyrst og fremst leggur n. til, að frv. verði breytt í heimildarlagaform. Í öðru lagi, að orðalagi frvgr. verði breytt þannig, að undir gr. falli 36 tunnur af millisíld frá Austfjörðum, sem eins er ástatt um og þá millisíld, sem frv. fjallar um. Loks eru niður felld ákvæði frv. um að greiða upphæð, sem millisíldareigendur áttu á sérreikningi í banka, ca. 9 þús. kr., þar sem þetta fé allt reyndist hafa farið í kostnað og raunar meira til. Nú er því aðeins um að ræða greiðslu á andvirði einnar sendingar af millisíld, sem fór með e/s „Íslandi“ til Kaupmannahafnar seinni hluta nóv., ca. 490 tunnur frá Norðurlandi og 36 tunnur frá Austfjörðum, sem fóru um sama leyti.

Ég vil leyfa mér að benda á, að allir, sem veiddu millisíld við Norðurland í haust og voru búnir að senda hana áður en þessi sending fór, sem hér er um að ræða, hafa fengið hana greidda að fullu. Og sama er að segja um þá, sem komust hjá að senda sína síld í þetta sinn og seldu hana sjálfir síðar. Það var því ekki nema þessi eina sending, sem samkv. ákvæðum bráðabirgðalaganna fell inn í bú einkasölunnar, og var andvirði hennar þó greitt inn í bú hennar eftir að það var tekið til skiptameðferðar. Nú sjá allir, hvað ósanngjarnt það væri, ef ríkið léti það koma niður á þeim fáu mönnum, sem þessa sendingu áttu og sem sumir áttu ekki annað af síld, að bráðabirgrðalögin voru af vangá þannig orðuð, að þessi sending ein og 36 tunnur af Austfjarðasíld lenti í búi einkasölunnar, þegar allir aðrir, sem millisíld veiddu á haustinu, fengu fyrir hana fullt verð. Í þessu sambandi má og benda á, að það var síður en svo, að millisíldin væri afhent af frjálsum vilja eigendanna, eins og í venjulegum verzlunarviðskiptum. Nei, þeir voru samkv. lagaákvæði neyddir til að afhenda hana, hvort þeir vildu eða ekki. Og það var að sjálfsögðu hrein tilviljun og handahóf, hverjir fyrir því urðu.

Mér finnst rétta liggja svo ljóst fyrir, að óþarft sé að fjölyrða frekar um frv. Mun ég því ekki hafa um það fleiri orð, nema ræður hv. þdm. gefi tilefni til.