06.06.1932
Efri deild: 96. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

1. mál, fjárlög 1933

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Ég var því miður ekki kominn í d., þegar hv. 2. landsk. byrjaði upplesturinn á þessari Alþýðublaðsgrein sinni, sem við erum nú nýbúnir að heyra. Eiginlega þarf ég ekki annað að segja viðvíkjandi aðdróttunum hans um undanhald af hálfu Sjálfstæðisflokksins í kjördæmamálinu en að gefa þær upplýsingar, að áður en sú ákvörðun var tekin í Sjálfstæðisflokknum að eiga þátt í myndun samsteypustjórnar með Ásgeiri Ásgeirssyni sem stjórnarforseta og ganga inn á að fresta málinu til næsta þings, þá var það í samráði við tvo af fulltrúum Alþýðuflokksins á þingi, þar á meðal hv. 2. landsk. Ég hefði aldrei sagt neitt úr því samtali, sem við áttum um þetta, ef hv. 2. landsk. hefði sýnt ha sjálfsögðu kurteisi að láta blaðagreinar sínar kom bara í Alþýðublaðinu, en ekki að lesa þær upp hér í þinginu. En úr því að hann hefir nú lesið þetta upp hér, þá verð ég að gefa upplýsingar um svör þessara forvígismanna Alþýðuflokksins. Þeir tjáðu, að þeim væri óljúft, að málinu væri teflt þannig, að koma þyrfti til nýrra kosninga án þess að stj.skrárfrv., eins og það var hér í Ed., væri samþ. Þeir gáfu í skyn, að yrði málinu frestað, þá myndi Alþýðuflokkurinn nota það til þess að fá einhvern flokkslegan ávinning á kostnað Sjálfstæðisflokksins. En sem sagt — þeir sögðu, að það væri í samræmi við sínar óskir að reyna nú að sneiða hjá árangurslausum kosningum.

Það, sem okkur sjálfstæðismönnum var sérstaklega annt um, var að fá að vita, hvort nokkur hætta væri á því, að Alþýðuflokkurinn myndi bregðast þessu máli á næsta þingi fyrir þessar sakir. En fulltrúar hans tóku það fram, að slíkt gæti ekki komið til nokkurra mála; það lægju fyrir fullgildar samþykktir frá æðstu stjórn þeirra flokks um að styðja þetta mál, og því mundi framfylgt.

Ég þarf eiginlega ekki að segja meira. Hv. 2. landsk. veit eins vel og ég, að enginn nema Framsóknarflokkurinn hefir tekið ákvörðun um, að láta málið ekki ganga fram á þessu þingi.

Þá gerði hv. 2. landsk. að umtalsefni yfirlýsingu þá, er Framsóknarflokkurinn hefir látið útvarpa, og að í henni felist engin loforð um lausn málsins á þessu þingi. Flokkurinn reyndist ofáanlegur til þess að láta málið ganga fram. Einnig reyndist hann ófáanlegur til þess að gefa yfirlýsingu í kjördæmamálinu, sem sjálfstæðismenn gætu talið fullnægjandi, eða nokkuð nálægt því, í sambandi við myndun hreinnar Framsóknarstjórnar. Ég hefi ekki óskað eftir neinum yfirlýsingum af hálfu Framsóknarflokksins um kjördæmamálið í sambandi við myndun þessarar stj., sem nú er sezt á laggirnar. Kjördæmamálinu er ekki bezt borgið með því, að það sé leyst samkv. vilja meiri hl. þess flokks, sem málinu er andstæðastur. Málið verður að leysast með atfylgi þeirra flokka, sem eru því fylgjandi, og þeirra manna úr Framsóknarflokknum, sem okkur standa næstir. Ég ætla að vona, að hv. 2. landsk. misvirði það ekki við mig, þótt ég óski ekki sérstaklega eftir því, að Framsóknarflokkurinn fari nú, þessa dagana, að taka ákvörðun um það að binda sína flokksmenn, þá sem málinu vilja sinna, við eitthvað það, sem meiri hl. flokksins er tilbúinn til að samþykkja nú. það, sem hv. 2. landsk. er að gera her, er ekkert annað en það, sem við vissum, að ritstjórar og blaðamenn flokksins myndu gera, þ. e. að reyna að nota sér það, að Framsóknarflokkurinn frestaði málinu, til þess að reyna að gera Sjálfstæðisflokkinn tortryggilegan í augum einhverra af þeim kjósendum, sem þessu máli eru fylgjandi, og reyna að veiða einhver atkv. handa Alþýðuflokknum. Ég er ekkert hræddur um, að honum takist rétta. Það er svo býsna margt, sem skilur á milli flokksmanna Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Og það þarf meira en annaðhvort tortryggingar eða fagurgala, hvoru sem yrði nú beitt af hálfu hv. 2. landsk., til þess að teygja sjálfstæðismenn yfir í sinn flokk. ég hefi um þetta ekki nema eina ósk, og hún er sú, að hv. 2. landsk. standi við það á næsta þingi, sem hann hefir sagt, að væri ákvörðun síns flokks, að halda áfram að veita þessu máli ósvikið fylgi, eins og ég vil trúa, að hann hafi gert, þó að hitt sé í hámæli, að hann hafi gert fyrrv. forsrh. Framsóknarflokksins tilboð um lausn á málinu, sem braut í bága við kröfur Sjálfstæðismanna, og sagt er, að ekki hafi staðið á öðru en að uppástungan hefði verið samþ. af meiri hl. æðstu stjórnar Framsóknarflokksins. Ég hefi ekki viljað trúa þessu, því að ég hefi alltaf haldið, að hv. 2. landsk. væri einlægur í þessu máli, og held, að hann sé það enn, þótt hann geri þessar kjósendaveiðatilraunir með þessari ræðu sinni. Að tilslökun hjá Sjálfstæðisflokknum hafi falizt í því, að Framsóknarflokkurinn frestaði málinu, sem hann hafði þingmeirihluta til, nær ekki nokkurri átt. Auðvitað var báðum andstöðuflokkunum boðið upp á að gera tilslakanir í málinu og láta það ná fram að ganga á þessu þingi. Þau tilboð komu frá Framsókn. Einmitt vegna þess, að við höfum ekki slakað til í málinu, er það ennþá óleyst og biður næsta þings. Þetta veit hv. 2. landsk. eins vel og ég.

Ég þakka svo hæstv. forseta, að hann hefir leyft mér þetta svar, sem raunar fer ekkert inn á efni þess mals, sem hér er til umr.