06.06.1932
Efri deild: 96. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

1. mál, fjárlög 1933

Magnús Torfason:

ég vil geta þess, sem ég hefi lýst hér yfir áður, að ég hefi aldrei gert mikið úr þessu mikla réttlætistali í kjördæmamálinu, sem hefir verið haft hér svo mjög á oddi. Ég hefi litið svo á, og hefi ástæðu til þess eftir samtal við íhaldsmenn á vetrarþinginu 1931, að allt þetta réttlætistal væri blátt áfram ekkert annað en kosningabeita, gert til þess að lækka hlut Framsóknarflokksins. En eins og við vitum, þá hefir þetta mistekizt, og það svo greypilega, að hér á þingi hefir því hvað eftir annað verið lýst yfir af andstöðuflokkunum, að þeir bæru enga von í brjósti um það, að þeir gætu komið Framsóknarflokknum í þann minni hl., að þessu réttlætismáli þeirra fengizt framgengt.

Ég þykist vita, að Sjálfstæðisflokkurinn, og þá sérstaklega formaður hans, hafi fullkomlega viðurkennt þetta með sjálfum sér, og það hefir komið fram að nokkru leyti á einum þingfundi hér í vetur, þar sem hv. 1. landsk. lýsti því yfir, að nokkrir framsóknarmenn væru tilbúnir til þess að ganga nú í samband við Sjálfstæðisflokkinn, og þá sjálfsagt líka Alþýðuflokkinn, til þess að leysa málið með því að slá af kröfunum. Það kom þannig fram eins og einhverjir framsóknarmenn hefðu verið að leita samninga við Sjálfstæðisflokkinn fram hjá stjórn síns eigin flokks og að þessir menn mundu ætla sér að sprengja Framsóknarflokkinn, ganga úr honum.

Nú hefir hv. 1. landsk. aftur lýst yfir því, að vonir hans standi til þess, að hann geti leyst þetta mál með einhverju broti úr Framsóknarflokknum, og það lýtur þá að því, að hann hafi von um, að honum takist að sprengja Framsóknarflokkinn. Jafnframt hefir verið talað um það, að einhver undirmál væru á milli núv. dómsmrh. og forsrh., og því verður mér á að spyrja: Er það virkilega meiningin með þessu að gefa í skyn, að hæstv. forsrh. muni ætla sér að gangast fyrir því að sprengja þann flokk, sem hann nú veitir forstöðu, með því að ganga með nokkrum mönnum að samkomulagi við sjálfstæðismenn um lausn á þessu máli? ég vil ekki trúa þessu; mér þætti þetta svo afskaplegt. Þess vegna leit ég svo á, að rétt væri að bera fram þessa fyrirspurn til hv. 1. landsk., hvort hann virkilega meinti þetta. Ég álít, að hæstv. forsrh. hafi rétt á að fá þessu svarað hér í deildinni nú strax.