30.04.1932
Neðri deild: 64. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1899 í B-deild Alþingistíðinda. (2078)

555. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. (Guðbrandur Ísberg) (óyfirl.]:

Það er rétt, sem hv. þm. Seyðf. gat um, að hann bar hér fram frv. um launakjör kennara í byrjun þings og því var vísað til menntrnn. Það var þar athugað og einnig aðrar till., sem komu frá kennurum sjálfum. Nú litu allir nm. með velvilja á þessar umleitanir kennara, en gátu hinsvegar ekki orðið sammála um, hvernig leysa ætti málið. Þar sem svo áliðið er nú orðið þings, þótti vonlaust, að heildarúrlausn þessa máls næði fram að ganga. N. greip þá til þess úrræðis að bera fram þetta frv. Frv. sýnir það, að n. telur skylt að bæta launakjör kennara, og hún lítur svo á, að þótt lítið sé, þá sé það þó kennurum nokkurs virði, fyrst og fremst í Rvík, þar sem dýrtíðin er mest. Ég get því ekki lítið svo á, að með frv. sé verið að gera gys að kennurum. Þetta er viðleitni til að bæta kjör þeirra, og það mál verður vafalaust tekið nánar til athugunar á næsta þingi. En það get ég sagt fyrir mitt leyti, að þótt þessi stétt sé yfirleitt illa launuð, þá búa samt sumir meðlimir hennar ekki við svo örðug kjör, að brýn nauðsyn sé að bæta þau, meðan svo er þröngt í búi hjá ríkissjóði sem nú er. En í Rvík þrengir vitanlega mest að kennurunum og þar verður ekki hjá því komizt að gera eitthvað í þá áttina að bæta kjör þeirra strax.