30.04.1932
Neðri deild: 64. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (2080)

555. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Jón Auðunn Jónsson:

Ég er hræddur um, að hv. flm. séu ekki kunnugir ástæðum gjaldþegnanna. Mér er kunnugt um það að á Ísafirði, Hafnarfirði og víðar er ekki hægt að borga föstum starfsmönnum laun sín. Þar er byrjað að bjóða upp eignir manna til greiðslu á opinberum gjöldum. Þegar svo er komið, þá sjá allir, að boginn er spenntur svo hátt, að hann hlýtur að bresta. Ég teldi gott og framar vonum, ef þessir lagt launuðu starfsmenn, kennararnir, geta fengið greiðslu á því, sem þeim ber að lögum. Það er fyrirsjáanlegt, að næsta ár geta bæjarfélögin ekki risið undir þeim þunga, sem á þeim hvílir, ef engu er af þeim létt. Útlitið er það, að atvinnurekendur hafa tapað ár frá ári, og þeir, sem vinna að útgerðinni, borið sáralítið úr býtum. Ég get ekki gengið inn á að hækka laun nokkurra manna, þegar atvinnuvegirnir veita ekki það, sem starfsmenn þeirra þurfa sér til lífsframfæris.