30.04.1932
Neðri deild: 64. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1902 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

555. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Mér finnst launakjör kennara þessu máli með öllu óviðkomandi. Ef full viðurkenning fæst fyrir því á Alþ., að kennarar séu of lagt launaðir, þá leiðir það náttúrlega ekki til annars en að hækka laun þeirra, en alls ekki til þess að gripa til svo óvenjulegra ráðstafana sem hér er gert. Það nær vitanlega engri átt, að það beri að líta á barnakennarana sem starfsmenn bæjar-og sveitarfélaga, þar sem þeim eru ákveðin laun og uppbætur sem öðrum starfsmönnum ríkisins. Og þótt bæjar- og sveitarfélögin borgi nokkuð af þeim launum, þá breytir það engu. Verður það að teljast skrítið, ef ríkið færi að setja reglur um, hvað bærinn ætti að greiða starfsmönnum sínum. Ákveða t. d. laun borgarstjóra eða annara þeirra, sem bærinn ræður og borgar. Að hér sé um starfsmenn ríkisins að ræða, sannar það, að þótt bæirnir að vísu greiði 2/3 af byrjunarlaunum kennaranna, þá greiðir ríkið samt þær uppbætur, sem þeir fá, bæði dýrtíðaruppbót og aldursuppbót. Ef þingið vill á einhvern hátt breyta þessu ákvæði til hækkunar á launum kennaranna, þá á að greiða þá hækkun úr ríkissjóði, en ekki úr sjóði bæjarfélaganna. Það er ósanngjarnt að breyta þessu á þennan hátt, sem hér er lagt til, og óviðkunnanlegt fyrir kennarana. Ég sé ekki, að þetta leiði til annars en þess, að Rvík verði að taka til athugunar, hvort hún sér það fært að halda uppi þeirri dýrtíðaruppbót, sem nú er ákveðin, ef undir það ákvæði á að bæta við fjölda manna. Gæti þá farið svo, að lækka yrði við alla. Kennurunum væri þá með því gerður ljótur leikur. Þeir fengju enga uppbót, en yrðu einungis meinsmenn annara. Rétt á litið er hér því ekki um neina leiðréttingu á launum kennaranna að ræða, heldur bara hótun til þeirra bæjarfélaga, sem ekki hafa lækkað þá dýrtíðaruppbót, sem þau borga starfsmönnum sínum, til jafns við það, sem ríkið greiðir. Þetta getur nú að vísu verið fjármálastefna, sem í sjálfu sér er bot mælandi, að neyða þá, sem betur borga, til að fylgja ríkinu um launagreiðslur til sinna manna.

Ég sé því ekki, að frv. Þetta bæti úr því, sem því er ætlað að bæta. En það getur orðið og verður sennilega til ills fyrir aðra. Hinsvegar verð ég að álíta, að full ástæða sé til að athuga, hvort ríkið geti ekki á einhvern hátt bætt kjör barnakennaranna. Það verður að teljast varhugavert og óviðfelldið að setja upp stórt kerfi af launamönnum, sem enginn sér út yfir, hve stórt kunni að verða. Það væri sjálfsagt betra, að það væri minna og að hægt væri að borga viðunanlega.