06.06.1932
Efri deild: 96. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

1. mál, fjárlög 1933

Jón Baldvinsson:

Hv. 3. landsk. hefir nú staðfest öll óheilindin, sem fram hafa komið í stjórnarskrármálinu. Það er sem sé þannig, að það eina, sem sjálfstæðismenn hafa að reiða sig á, er það, að hv. þm. þykist eygja einhverja möguleika til að leysa þetta mál á næstu árum, svo að vel mætti við una. eða eins og hann tók fram í sömu ræðu, á þann hátt, sem Framsóknarflokkurinn allur gæti samþ. Ég bendi á þessi ummæli hv. þm. til þess að sýna, hve veik þessi von er hjá hv. 1. lands. og hve veikar þær ástæður eru, sem hann hefir nú fram að færa fyrir því, að hann hefir nú brugðizt stefnu sinni í málinu. Ég vil alls ekki fullyrða, að þeir viti það sjálfir, að málið gengur ekki fram. Ég vil vona það, að þeim verði að þeirri trú, að hæstv. forsrh. geti með einhverjum mönnum úr Framsóknarflokknum samþ. viðunandi lausn á málinu í Nd., en eins og hún er skipuð nú, þarf að fá atkv. 3 framsóknarmanna auk jafnaðarmanna og sjálfstæðismanna til að koma fram málinu í Nd., og ef Ed. væri þá skipuð eins og nú og hv. 3. landsk. kæmi þá auga á möguleikann og yrði með í Ed., þá mætti vera, að málið næði fram að ganga. En allar yfirlýsingar um þetta henda frekar í aðra átt, svo að það er ómögulegt, að nokkur maður geti staðið upp og haldið því fram í alvöru, að von sé um lausn málsins á næsta þingi, eins og sjálfstæðismenn vilja nú fullyrða.

Hv. 1. landsk. segir, að það hafi verið ómögulegt að fá þessu máli framgengt á þessu þingi nema með því að slá af kröfunum. Þetta eru ný orð hjá hv. þm. og sýna stefnubreytinguna. Hv. 1. landsk. hefir innleitt það í umr. hér að vitna í einkasamtöl þingmanna. Ég vil fara hér að hans dæmi og vitna í fjöldamörg samtöl, sem ég hefi átt við þennan hv. þm., þar sem hann hefir fullyrt, að Framsókn væri að láta undan, og væri málunum fylgt fast fram, þá væri það ekkert efamál, að Framsókn léti undan, en við bærum sigur úr býtum og kæmum málinu fram á þessu þingi. Þetta hefir hann fullyrt í einkasamtölum við mig dögunum oftar. (JónÞ: ég þurfti bara að brýna hv. þm.). Það er sama, hvernig það er nú lagt út af hv. 1. landsk. Þetta sýnir aðeins, hve staðfastur hv. hm. er og hve fast hann heldur á málunum. Og ég er líka viss um, að við hefðum fengið málið fram, ef staðið hefði verið fast saman um málið, og hv. 1. landsk. sagði þá, að gera ætti.

Alþýðuflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa á þessu þingi látið þau mál hvíla, sem þeir hvor um sig höfðu þó ekkert við að athuga sem stefnumál, til þess að knýja kjördæmamálið fram. Alþýðuflokkurinn hefir ekki á þessu þingi flutt þau tekjuaukafrv., sem hann vildi fá framgengt í staðinn fyrir verðtollinn. Það gerði hann með ráðnum hug með tilliti til þessa máls. Það er alveg satt, sem hv. 3. landsk. minntist á um dag inn, að þegar hér var til umr. og atkv. frv. um hækkun á tekju- og eignarskatti, hefði atkvgr. verið dræm. Það var að því er mig snertir af þessum sömu ástæðum. Ég greiddi frv. þó atkv. í það sinn, svo að það gæti gengið til n. og fengið par athugun, en síðan ætlaði ég ekki að greiða því frv. atkv. frekar en öðrum tekjuöflunarfrv., svo að mögulegt yrði að knýja stjórnarskrármálið fram nú.

Hv. l. landsk. skýrir aðstöðuna nú nokkuð öðruvísi en hann hefir gert áður. Hann segir, að nú hafi aðeins tvennt legið fyrir, annað að knýja fram nýjar kosningar, en hitt að fresta málinu til næsta þings. Hv. þm. var trúaður á það, og ég býst við, að það hafi verið rétt hjá honum, að Framsókn hefði látið undan, ef fast hefði verið staðið á móti. En þegar fyrir mánaðamótin fór að finnast bilbugur á sjálfstæðismönnum. Framsóknarmenn gengu fram í þeirri dul, að þeir gætu kúgað sjálfstæðismenn og fengið þá til að ganga frá því, sem þeir höfðu barizt fyrir ásamt Alþýðuflokknum. Það má segja, að þetta hafi farið fram á þann hátt, að framsóknarmenn hafi tekið þá með sér upp á hátt fjall og sýnt þeim yfir allt landið og bent þeim á verzlunarflotann, fiskiflotann og dómsmálin og sagt: „Allt þetta leggjum við undir ykkar umsjón, ef þið fallið frá kröfum ykkar í kjördæmaskipunarmálinu“. Og sjá, sjálfstæðismenn fellu fram og tilbáðu Framsókn og lögðu Magnús Guðmundsson til sem umsjónarmann.

Þá vil ég minnast á frestinn, sem hv. 1. landsk. sagði, að mögulegt hefði verið að fá hjá gömlu stj. án þess að fá lausn kjördæmamalsins. Ég er sannfærður um það, að ef hægt hefði verið að fá gömlu stj. til að fresta þinginu þangað til í ágúst, þá hefði hún nauðug viljug orðið að ganga að kröfum Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins í kjördæmaskipunarmálinu, af því að það er áreiðanlegt, að margir framsóknarmenn eru — eða réttara sagt voru — komnir að raun um það, að ekki yrði hjá því komizt að slaka til í þessu máli. En margir þeirra munu hafa litið svo á, að þeir yrðu að fara heim til kjósendanna til þess að bera sig saman við þá. En þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefir slakað til í annað sinn — hann gerði það fyrst á sumarþinginu, — þá þurfa framsóknarmenn ekki að vera hræddir lengur, því miður, því að þá sjá þeir, að engin hætta er á, að sjálfstæðismenn, sem gengu frá kröfum sínum 1931 og 1932, geri það ekki líka 1933.

Ég vísa algerlega til baka þeirri ásökun, sem hv. 1. landsk. bar á mig, að ég hefði látið finna bilbug á mér í kjördæmaskipunarmálinu, því að hann hefir enga ástæðu til að ætla, að við Alþýðuflokksmenn séum nú á neinn hátt að hverfa frá þeim kröfum, sem við höfum í vetur haldið fram ásamt Sjálfstæðisflokknum. Um þetta mál hefir enginn ágreiningur verið, og mér er kunnugt um það, að hv. 1. landsk. hefir margsagt, að hann vildi halda málinu til streitu og knýja lausn þess fram á þessu þingi eða þessu ári. Og það hefði munað miklu, ef þessi frestun á þinginu hefði fengizt þangað til í ágúst. Þá hefðu framsóknarmenn fengið tíma og tækifæri til að endurskoða sínar till. í málinu, og þá hefðu þeir hlotið að láta undan síga, ef enginn bilbugur hefði fundizt á andstæðingunum. Það hefði verið mikill munur á því eða eins og allt er nú. Nú vita framsóknarmenn, að þeir hafa viss tök á Sjálfstæðisflokknum,þau tök, að bjóða honum stöðu í stj. Að því gekk Sjálfstæðisflokkurinn, og þar sem hann hefir nú slakað þannig til, þá getur Framsóknarflokkurinn búizt við tilslökunum áfram frá þeirra hendi. Það er því miður hætt við, að þeir gangi upp í þeirri dul, nema því aðeins, að sjálfstæðismenn sjái nú að sér á næsta þingi, ef þá verður aðstaða til að leysa þetta mál.

Þá vil ég benda hv. 1. landsk. á það, að það eru erfiðleikar á því fyrir jafnólíka flokka og Alþýðuflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn að standa lengi saman í baráttu um mál eins og þetta, þó að það sé mikið réttlætismál. Sóknin í þessu máli kostar það, að setja verður til hliðar ýmis önnur mál, sem þó eru stefnumál þeirra, eins og gert hefir verið í vetur.

Þess vegna verður því erfiðara að leysa málið, því lengur sem slík barátta stendur. Það liggur í hlutarins eðli, að svona ólíkir flokkar eiga erfitt með að setja til hliðar stefnumál sín fyrir þetta eina mál, þó að það sé stórt og þó að það sé mikið réttlætismál. Þess vegna eykur allur frestur á erfiðleikana. Því lengur sem það dregst að leysa það, því minni líkur eru til, að það geti náð fram að ganga.