03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1910 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

555. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Sveinbjörn Högnason:

Ég vildi ekki láta hjá líða, vegna brtt. hv. þm. Seyðf., að benda á það, að þó mikil þörf sé á dýrtíðaruppbót á laun kennara þar, sent dýrtíðin er mest og húsaleiga hæst, þá gegnir nokkuð öðru máli um launakjör kennara við fasta skola í sveitum. Ég hygg, að eftir því sem starfsmönnum er yfirleitt greitt, þá sé ekki hægt að segja með neinum rétti, að kennararnir við hina föstu barnaskóla þar séu mjög illa settir.

Í till. hv. þm. Seyðf. er gert ráð fyrir, að allir barnakennarar við fasta skóla fái greiddan helming af húsaleigu eftir 3 herbergi og eldhús. Nú eru margir þessara kennara einhleypir menn, og auk þess verður að taka tillit til þess, að allur fjöldinn af fólki í sveitunum hefir ekki slík húsakynni við að búa. Það er ekki rétt að miða slíka uppbót við húsnæði, sem er langt fram yfir það, sem almenningur á viðkomandi stað verður að búa við. Ég get fallizt á, að þörf sé á uppbót sem þessari þar, sem húsnæði er mjög dýrt, eins og t. d. hér í Rvík. Hinsvegar get ég ekki fallizt á, að það beri sérstaklega brýna nauðsyn til þess að bæta þeim mönnum upp, sem falla undir d-lið laganna. Og ég tel það í ósamræmi við kjör fólksins yfirleitt þar, sem þeir starfa, ef þeim er greidd uppbót, sem miðuð er við leigu eftir 3 herbergi og eldhús, hvort sem þeir eru einhleypir eða ekki. Mun ég því greiða atkv. gegn brtt. hv. þm. Seyðf., þar sem ég tel hana á röngum grundvelli reista.