06.06.1932
Efri deild: 96. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

1. mál, fjárlög 1933

Jón Þorláksson:

Hv. 2. landsk. segir, að ummæli hv. 3. landsk. hafi sýnt, hve veik von sé um framgang stjórnarskrármalsins. Ég vil segja honum það, að ég byggi ekki eingöngu á ummælum hv. 3. landsk., ég hefi miklu sterkari vonir en það eitt, sem af hans ræðu mátti ráða.

Hv. 2. landsk. ber ekki lengur brigður á það, að ómögulegt hefði verið að koma málinu óskemmdu frá þessu þingi, en hann heldur því fram, að það hafi verið mistök að fresta ekki þingi þangað til í ágúst, því sennilega hefði verið hægt að koma því fram óspjölluðu þá. En það er algerður spádómur, að hægt hefði verið að afgr. málið á viðunandi hátt í ágúst, enda þótt unnt hefði verið að fá þingfrestun þangað til. Um hitt held ég að liggi fyrir yfirlýsing frá stj. sjálfri, að hún á næsta þingi leggði fram frv. um lausn á málinu.

Hv. 2. landsk. gerði mér þann greiða að minna á það, að ég hefði oft haldið því fram í viðtölum við hann á þessu þingi, að við yrðum að standa fast á málinu. hetta er rétt hjá hv. þm., ég hefi oft gert það. Ég hefi jafnan haldið því fram, að við ættum að standa fast á málinu og slá ekki af kröfunum, og það hefir ekki heldur verið gert. En það er ekkert höfuðatriði fyrir þjóðina, hvort fullnaðarlausn málsins fer fram nokkrum mánuðum fyrr eða seinna. Hér er verið að búa til lög, sem þjóðin á að búa við um langan tíma, og er því mest undir því komið, að sú endanlega lausn verði goð og réttlát. Þess vegna er meira um það vert að fá þeim réttlátu kröfum framgengt heldur en að afgreiða málið kannske nokkrum mánuðum fyrr á þann hátt, að þar væri um ófullkomna réttarbót að ræða. Við sjálfstæðismenn höfum ekki heldur slegið neitt af kröfunum, og það er ómögulegt að segja, að neinn bilbugur sé á okkur í þessu máli, á meðan við gerum það ekki.

Í niðurlagi ræðu sinnar gaf hv. þm. það að vísu fullkomlega í skyn að miklir erfiðleikar væru á því fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Alþýðuflokkinn að vinna þannig saman til lengdar, flokkarnir væru ólíkir og erfitt fyrir þá að setja stefnumál sín til hliðar fyrir þetta eina mál. Mér er vel ljóst, að þetta er alveg rétt, og ég veit, að þessir erfiðleikar aukast. Sérstaklega kynni það að verða erfitt fyrir Alþýðuflokkinn að fylgja þessu máli fram með allri þeirri harðneskju, sem minni hluti þarf að beita til þess að koma sínum málum fram. En einmitt af þessum ástaeðum var það, að okkur sjálfstæðismönnum þótti sérstaklega mikil nauðsyn til þess að vera í fullu samræmi við Alþýðuflokkinn, þegar um tvennt var að velja, nýjar kosningar eða frestun til næsta þings. Við höfum nú fulla vissu fyrir því, að þessi leið, frestur an kosninga, hefir í för með sér enga breytingu á afstöðunni til þessa máls fram á næsta þing þrátt fyrir þá erfiðleika, sem hv. 2. landsk. réttilega lýsti. Þessi frestur gerir ekki heldur neina breyt. á afstöðu Sjálfstæðisflokksins til málsins. Og þessir tveir flokkar hafa alveg sömu möguleika á næsta þingi, að neita um framgang mála, sem við í raun og veru erum ekki mótfallnir, en stöndum þó á móti til þess að knýja stjórnarskrármálið fram.

Ég vil svo enda þessa stuttu aths. mína með því að láta það í ljós, að ég fulltreysti því, að á næsta þingi standi Alþýðuflokkurinn við hlið okkar sjálfstæðismanna til að leysa þetta mal og beita þá þeim vopnum, sem minni hl. telur, að dugi til þess að knýja fram réttláta lausn þessa máls.