14.05.1932
Efri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (2107)

555. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. frsm. sagði, að það gæti ekki komið til mála, að ríkið færi að greiða þessum starfsmönnum hærri dýrtíðaruppbót en öðrum. En ég vil vekja athygli hans og annara hv. dm. á því, að með því að samþ. Þetta frv. viðurkennir Alþ., að þessum starfsmönnum ríkisins sé vanborgað og að dýrtíðaruppbót þeirra sé óþægilega lág. Það er ómögulegt að skilja þessa lagasetningu á annan veg. Því hvaða ástæða önnur gæti verið til þess að skylda bæjarfélögin til þess að greiða þessum starfsmönnum hærri laun en ríkið hefir ákveðið þeim?

Hitt, sem hv. frsm. var að tala um, að ef bærinn sæi sér fært að borga starfsmönnum sínum hærri dýrtíðaruppbót en ríkið borgaði sínum starfsmönnum, þá væri sanngjarnt, að þetta næði einnig til kennaranna, tel ég nú mjög hæpið, því að launakjör starfsmanna bæjarins eru ákveðin af allt öðrum aðila en laun kennara, svo það getur vel verið, að laun starfsmanna bæjarins séu of lág og að ástæða sé til að borga þeim hærra, þótt það eigi ekki við um starfsmenn ríkisins. Það verður að gæta þess, að hér er um tvo launaskála að ræða, sem ekki eru ákveðnir af sama aðila og standa því ekki í neinu sambandi hvor við annan.

Hinsvegar hefi ég litið svo á, að það væri með öllu óviðeigandi af bæjarstj. að fara að taka fram fyrir hendur þings og stj. um launakjör starfsmanna ríkisins, eða beinlínis að slétta sér fram í viðskipti þeirra við ríkið. Það var m. a. af þeirri ástæðu, að bæarstj. gat ekki gengið inn á þessa braut.