17.05.1932
Efri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í B-deild Alþingistíðinda. (2130)

557. mál, sjúkrasamlög

Jón Jónsson [óyfirl.]:

Eins og hv. frsm. réttilega tók fram, hefi ég ekki getað fylgzt með um afgreiðslu þessa frv. Ástæðan er þó ekki sú, að ég viðurkenni ekki fyllilega hina merkilegu starfsemi sjúkrasamlaganna. Ég álít þau hvert á móti alls góðs makleg af því opinbera og ekki nema sjálfsagt að greiða götu þeirra svo sem unnt er með breyttri löggjöf, að svo miklu leyti sem slíkt verður ekki til að auka útgjöld ríkissjóðs. Af þeim ástæðum hefi ég og fallizt á að afgr. þetta frv. að öðru leyti en því, sem tekur til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð. Eins og stendur verður ekki meiru hlaðið á ríkissjóð en þegar er búið að gera, en hér er farið fram á allverulega hækkun á útgjöldum ríkissjóðs vegna sjúkrasamlaganna frá því, sem nú er. Samkv. gildandi ákvæðum á ríkissjóður ekki að greiða nema 75 aur. fyrir hvern samlagsmann, en hér er farið fram á að hækka þetta upp í 1,50 kr. fyrir hvern legudag, og nemur þessi hækkun ekki alllitlu fyrir ríkissjóð.

Sem dæmi skal ég benda á það, að samkv. bréfi landlæknis (þskj. 557, bls. 5) nam tillag ríkissjóðs til samlaganna 3024,75 kr. síðastl. ár, en hefði orðið 18885,75 kr. samkv. ákvæðum frv., eða með öðrum orðum sexfaldazt. Sjá menn því, að hér er ekki um litla hækkun að ræða fyrir ríkissjóð, og mundi þó þessi breyt. hafa meiri afleiðingar í för með sér, því að hún mundi verða til þess, að fleiri gengju í sjúkrasamlögin, og yxu því útgjöld ríkissjóðs vegna samlaganna meira en bent er til með núv. starfsemi þeirra. Að vísu má segja, að þetta væri vel farið, en ég tel, að við verðum að gæta allrar varfærni um að binda ríkissjóð með auknum útgjöldum. Það er og sannast að segja, að ríkissjóður leggur nú þegar allríflega til heilbrigðismálanna, miðað við getu okkar. Fyrst og fremst ber hann að kalla einn allan hinn gífurlega kostnað, sem berklavarnirnar hafa í fór með sér, og auk þess verður hann að greiða samkv. fátækralögunum 2/3 af sjúkrahúskostnaði þurfamanna. Hér voru og um daginn afgr. l. um breyt. á berklavarnál., sem leysa sjúkrasamlögin undan því að greiða nokkurn hl. af berklavarnakostnaðinum, eins og þeim bar áður. Má að vísu segja, að þetta kæmi í sama stað niður fyrir ríkissjóð, af því að samlögin gátu ekkert borgað hvort sem var, en hér er þó engu að síður um ívilnun að ræða heim til handa, þar sem þau eru leyst undan þessari skyldu. Af þessum ástæðum, sem ég nú hefi greint, get ég ekki greitt 1. gr. þessa frv. atkv., og verð ég að mælast til þess, að hv. d. felli þessa gr. frv., og tek ég þó nærri mér að þurfa að leggja þetta til, því að ég tel, að sjúkrasamlögin séu alls góðs makleg og að æskilegast væri að geta styrkt þau sem ríflegast, en hinsvegar verð ég þó jafnframt að líta svo á, að samlögin megi vel við una í bili þá úrlausn heim til handa, sem frv. að öðru leyti felur í sér.