17.05.1932
Efri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

557. mál, sjúkrasamlög

Bjarni Snæbjörnsson:

Ég þykist vita, að hv. þdm. blandist ekki hugur um það, þvílíkt nauðsynjamál þetta er fyrir sjúkrasamlögin og að sjúkrasamlögin eru nauðsynleg hér sem annarsstaðar. Hv. 3. landsk. taldi þó, að ríkissjóður legði það mikið fram til heilbrigðismálanna, að undanskilja mætti þetta á þessum krepputímum. En þess er að gæta, þegar um sjúkratryggingarnar er að ræða, að ríkissjóður hefir lagt miklu minna fram til þeirra en vera ætti og nokkursstaðar tíðkast í öðrum löndum. Það sýnist því ekki vera nein goðgá, þó að farið sé fram á lítið eitt hærri styrk til sjúkrasamlaganna en verið hefir. Þar er um virðingarverða og mannbætandi stefnu að ræða, sem kemur fram í því, að menn mynda með sér félagsskap með það fyrir augum að hjálpa öðrum, jafnframt því, sem þeir þó hafa hagnað af því sjálfir. Svo að ég víki að því fjárframlagi, sem hér er farið fram á, þá er svo ástatt, að Sjúkrasamlag Rvíkur á nú við mikla fjárhagslega örðugleika að stríða, sem stafa af því, eins og hv. 4. landsk. tók fram, að sjúkrahúskostnaður samlagsins hefir vaxið stórkostlega vegna landsspítalans, og er ástæðan sú, að það er dýrara fyrir samlagið að hafa sjúklinga á landsspítalanum en öðrum sjúkrahúsum. þeim stunda sjúkrasamlagslæknarnir sjálfir sjúklingana og daggjaldið á þeim er ekki nema 5 kr., auk þess sem samlagið fær oft afslátt á daggjöldunum, en á landsspítalanum er daggjaldið 1 kr. hærra. Þar stunda spítalalæknarnir sjúklingana, svo að samlagið kemur þar ekki að sínum eigin læknum, og verður sjúkrahúsvistin því miklu dýrari af þessum ástæðum. Þess verður og að gæta, að þegar ríkistillagið var ákveðið 0,75 kr. fyrir hvern meðlim sjúkrasamlaganna, voru aðrir tímar en nú eru. Í raun og veru var þetta gjald jafnmikið þá og nú væri það gjald, sem hér er farið fram á, því að bæði var daggjaldið á sjúkrahúsunum lægra þá en nú, og auk þess voru sjúkrahúsin færri, og gátu færri sjúklingar af þeim ástæðum fengið inni á sjúkrahúsunum þá en nú. Bæirnir, þar sem sjúkrasamlögin hafa starfað, hafa og seð það, hversu þörf fyrirtæki sjúkrasamlögin eru, og hafa gert sitt til þess að styrkja þau í starfi sínu, með því að hækka styrk til þeirra, og mér finnst ekki nema sanngjarnt, að ríkissjóður geri einnig sitt til að halda samlögunum uppi, ekki sízt þegar litið er til þess, að landsspítalinn missir mikils í, ef sjúkrasamlagið hér verður að leggjast niður vegna skilningsleysis Alþingis á hlutverki þess. Mér er og kunnugt um það frá stj. sjúkrasamlagsins í Hafnarfirði, að ef gjöld samlagsmanna þar hækka frá því, sem nú er, verður slíkt til þess, að samlagsmennirnir fara úr félaginu, en markið er auðvitað að fá sem flesta í samlögin og að menn sjái sér hag af því að vera í þeim. Það er rétt, að nú eru miklir krepputímar og yfirleitt mjög miklar hækkanir á útgjöldum ríkissjóðs. En það verður þó að taka til greina þau útgjöld, sem eru til hjálpar þeim, sem bágast eiga, sjúklingunum og þeim, sem harðast verða úti í kreppunni.