17.05.1932
Efri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1930 í B-deild Alþingistíðinda. (2137)

557. mál, sjúkrasamlög

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Það kemur vitanlega fyrir, að fjmrh. þurfi að leggjast á móti smámunum, og einnig hitt, að andstöðuflokksmenn saki ráðh. um það, að hann skipti sér eingöngu af smámunum. En það mundi kannske hafa verið auðveldara fyrir mig að skipta mér minna af smámunum eins og þessum, ef hv. þd. hefði samþ. tekjuaukafrv. þau, sem ég hefi borið fram, t. d. um verðtoll á tóbaksvörum. Ef menn hefðu greitt atkv. með slíkum sjálfsögðum tollum að þessum tímum, þá hefðu menn haft meiri rétt til að brýna mig á máli eins og þessu. En þegar það hljómar hér stöðugt, að það þurfi engar nýjar tekjur, bara lækka öll útgjöld og hætta öllu bruðli, eins og það er orðað, þá er ekki gott að áfella mig fyrir það, þó ég vilji verjast sumu af því, sem verið er að leiða inn á þessu þingi.

Ég hefi átt tal við ýmsa menn í sjúkrasamlögunum og skýrt þeim frá, að örðugt mundi vera að fá samþ. hækkanir til þeirra á þessum tímum, en þó hefði ég fallizt á, að þeir nytu berklavarnastyrks eins og aðrir, og það mál er nú í góðum gangi. En ég hefi alltaf sagt, að ekki væri mögulegt að fá hækkun sem nokkru næmi til sjúkrasamlaganna. Og mér hefir skilizt á sumum í sjúkrasamlögunum, að þau mundu geta lifað, ef þau fengju aðrar lagabreyt., sem heldur léttu undir með heim, þó þau fengju engan aukinn styrk. Ég hygg, að það sé hægt að styðja samlögin svo, að þau líði ekki undir lok, an þess að binda ríkissjóði stóra aukna bagga. Tímarnir eru þannig núna og flokkarnir taka þannig í málin, að ekki er hægt að auka útgjöld ríkissjóðs svo neinu verulegu nemi.