17.05.1932
Efri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (2138)

557. mál, sjúkrasamlög

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Hæstv. fjmrh. komst þannig að orði í síðustu ræðu sinni, að áheyrendur hefðu mátt skilja það svo, að ekkert bagaði nú getu ríkissjóðs til nýrra eða aukinna fjárframlaga annað en illska andstöðuflokka stjórnarinnar. Ég held, að enginn hefði misvirt það við hæstv. ráðh., þó hann hefði haldið sér við sannleikann í þessu máli og sagt eins og er, að hag ríkissjóðs er svo illa komið, að hann er ekki fær um að taka á sig auknar álögur. Hæstv. ráðh. þarf ekki að leita að ástæðum fyrir þessa hjá andstæðingum núv. stj. Hann getur miklu fremur fundið þær í gerðum síns flokks og þeirra ráðh., sem með honum sitja í ráðuneytinu.

Út í hitt ætla ég ekki að fara, sem hann gaf dálítið í skyn, að undirtektir stjórnarandstæðinga undir tekjuaukafrv. hefðu verið stirðar. Okkur sýnist ekki efnahagur eða afkoma einstaklinga beint bjóða þinginu upp á auknar álögur eins og stendur. En að öðru leyti þarf hann ekki um okkar framkomu að kvarta. Við höfum ekki lagt á móti sparnaðartill., sem fram hafa komið og meira að segja brotið upp á ýmsu í því efni. En hitt veit ég, að hæstv. fjmrh. kippir sér ekki upp við það, þótt lagt sé kapp á, að ekki haldist til langframa ástandið um meðferð valds í landinu, að það er minni hl. þjóðarinnar, sem hefir allt vald og fer með það, og krefja menn um breyt. og neyta til þess hins litla afls, sem enn er eftir í höndum meiri hl. þjóðarinnar á þinginu.