17.05.1932
Efri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (2139)

557. mál, sjúkrasamlög

Bjarni Snæbjörnsson:

Það voru fáein atriði í ræðu hæstv. fjmrh., sem ég vildi svara. Hann komst þannig að orði, að sjúkrasamlögin hefðu vanrækt á góðu árunum að fá þennan styrk. Ég hefi margtekið það fram, að þetta frv. er fram komið vegna hinna gífurlegu hækkana á sjúkrahúskostnaði, sem orðnar eru í Rvík, aðallega síðan landsspítalinn tók til starfa. Hæstv. fjmrh. veit því vel, að á góðu árunum var engin svipuð ástæða fyrir sjúkrasamlögin til að biðja um aukinn styrk.

Annað atriði, sem hæstv. fjmrh. talaði um, var, að sveitarstyrkur og ríkisstyrkur til sjúkrasamlaga væri lægri hér en annarsstaðar. En ég hygg, að það sé ekki rétt. Sveitarstyrkur er hærri hár til sjúkrasamlaga en annarsstaðar, a. m. k. í Danmörku. Eftir því, sem landlæknir segir, þá er sveitarstyrkur í Danmörku 2,4%, en hér á landi 10,5%. Þetta sýnir, að bæjarfélögin kunna að meta starfsemi sjúkrasamlaganna, en það stendur bara upp á ríkissjóð. Viðvíkjandi berklavarnastyrknum er það þannig, eins og tekið hefir verið fram, af hann væri í mesta mata ósanngjarn, þar sem krafizt væri tvöfaldrar borgunar af þeim mönnum, sem væru í sjúkrasamlögunum. Það er vitanlega ranglát löggjöf og því sjálfsagður hlutur að kippa því í lag. En það, að berklavarnastyrkurinn sé hærri nú í ár en síðasta ár, þarf engan að undra, því það liggur í hlutarins eðli, að eftir því, sem sjúkrahúsunum fjölgar, hlýtur berklavarnastyrkurinn að hækka. Ég er sízt að lasta það, að sjúkrahúsunum fjölgi og stjórnin sýni það, að hún vill hjálpa upp á sjúklinga, en þá verður hún líka að taka afleiðingunum af því, að berklavarnakostnaðurinn hækkar með sjúkrahúsfjölguninni.