28.04.1932
Neðri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

528. mál, reksrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Mér fannst hæstv. fjmrh. fara dálítið framhjá því, sem ég talaði um. Talaði hann um mismun á þessum 2 frv., sem hér ræðir um. Í grg. fyrir frv. Landsbankans er það látið í ljós, að þótt stj. Landsbankans áliti þessa lánsheimild réttláta tryggingarráðstöfun, þá ætlist hún ekki til þess, að Landsbankinn noti neitt af þessu lánsfé, og að ekki megi gripa til nýrrar lánsheimildar, nema ófyrirséð atvik geri það nauðsynlegt. En eftir grg. á að nota lánsheimild Útvegsbankans að öllu leyti. Er því hér ekki líku saman að jafna. Hefi ég í þessu sambandi bent á þá áhættu, sem verið hefði að lántökum Útvegsbankans hjá Landsbankanum að undanförnu, þar sem það hefði sýnst sig, að hann hefði ekki getað greitt víxla sína á ákveðnum tíma. Eins fór hæstv. fjmrh. í kringum málið, þegar hann talaði um ólöglegu seðlaútgáfuna. Sagði ég ekki, að gera ætti Útvegsbankanum ómögulegt að starfa með því að taka af honum seðlaútgáfuna, heldur hitt, að seðlaútgáfuna bæri að flytja á hinn rétta stað, þar sem hún á að vera lögum samkvæmt, og að Landsbankinn gerði þá þær ráðstafanir gagnvart Útvegsbankanum, sem gerðu þetta kleift. Væri það í anda núgildandi bankalöggjafar, því að þar er ætlazt til þess, að Landsbankinn hafi seðlaútgáfuna og að aðrar peningastofnanir séu ekki seðlabankar. Enda get ég ekki seð ástæðu til að gera þetta ekki, nema ef ríkisstj. þættist betur geta komið málum sínum fram gagnvart Útvegsbankanum en Landsbankanum.