28.04.1932
Neðri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1939 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

528. mál, reksrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Magnús Guðmundsson:

Það eru eflaust allir sammála um, að það sé ekki skemmtilegt að þurfa nú að bæta við erlendar skuldir banka og ríkis. En af upplýsingum hæstv. fjmrh. skilst mér, að ástandið sé þannig, að Útvegsbankinn geti ekki lagt af mörkum fé til atvinnuvegi landsmanna, og að Landsbankinn geti það ekki heldur, eða vilji ekki gera það, og þá er ekki nema um tvennt að gera, að fá verður rekstrarfé að láni eða að atvinnurekstur verður að stöðvast.

Fái atvinnuvegirnir ekkert fé, skilst mér fiskurinn, sem veiddur er, verði að liggja óverkaður, því að hitt væru svik við verkafólkið, að láta það vinna að verkun hans, en greiða því svo ekkert kaup. Auk þess verður ekki hægt að borga því fólki, sem unnið hefir á vertíðinni.

Mér skilst málið borið svo fram, og nauðsynin svo mikil, að mér finnst tæplega hægt að neita um þessa lánsheimild. Og þó á öllum sé ljóst, að það sé rétt sem Landsbankinn segir, að hættulegt sé að bæta við erlendum lánum, þá verður ekki komizt hjá því eins og ástandið er nú og útlitið fram undan. — Ef þetta er ekki rétt skilið hjá mér, vænti ég, að hæstv. fjmrh. leiðrétti mig.