20.05.1932
Efri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1950 í B-deild Alþingistíðinda. (2171)

528. mál, reksrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Það er rétt, að saga þessa máls er orðin alllöng. Hún hefst eiginlega með enska láninu 1921. Og það var mála sannast um það lán, að lítil von var til þess, að það frysi ekki inni hjá bankanum, enda var það lán tekið til langs tíma. Næsti þáttur sögunnar er svo sá, að Íslandsbanki er endurreistur 1930. Það var gert af stjórn, sem ég átti ekki sæti í, heldur hæstv. dómsmrh. Á síðasta þingi var Útvegsbankanum enn veittur stuðningur. Var það gert mótmælalaust af öllum, hæstv. dómsmrh. líka. Það, sem ég hefi átt þátt í sem fjmrh., er þá sá stuðningur, sem bankanum var veittur í vetur, þegar þingið samþ., að ríkið tæki ábyrgð á sparisjóðsinnstæðum í bankanum, og svo þessi ábyrgðarheimild, er nú liggur hér fyrir.

Það má nú vera, að mælir syndanna hafi verið orðinn fullur áður og að þess vegna hefði ég ekki átt að flytja þetta. En ég réðist þó í að gera það, vegna þess að Útvegsbankinn taldi sér brýna þörf á því, enda er þeim banka stjórnað af ríkisvaldinu og því enginn eðlismunur á því fyrir ríkið að styðja hann eða Landsbankann, þar sem þing og stjórn ræður bankastjórana, og ekki mun heldur vera hægt að benda á, að bankinn sé á neinn hátt illa rekinn nú. Þótt illa hafi farið um lánið, sem Íslandsbanki fékk 1921 og síðar, þá eru það engin rök gegn því, að útvegsbankanum sé veittur þessi stuðningur. Þeirra hluta vegna er ekki hægt að lata hætta við t. d. að verka fiskinn, sem kominn er á land í Vestmannaeyjum, eða að veita vélbátunum nauðsynleg rekstrarlán, svo að þeir geti farið á flot. Og þess er að minnast, að veturinn 1930, þegar Íslandsbanki var „rekonstrúeraður“, þá fylgdi þegar á eftir hruninu í febrúar eða marz — ég man ekki hvort heldur var — frv. frá stj. um það, að ríkið tæki ábyrgð á þeim lánum, er Landsbankinn veitti vegna útgerðar í Vestmannaeyjum til þeirra manna, er höfðu verið viðskiptamenn Íslandsbanka, Það var um ábyrgð á 1 millj. kr. að ræða, og stóð ekki á neinum að veita hana. Þetta sýnir bezt, að ekki er hægt að komast undan slíkum kröfum, þó að einni stofnun sé neitað. Og ef Útvegsbankanum er neitað um þetta, þá mundi fara líkt og fór 1930. Landsbankinn yrði þá að taka þessa starfsemi að sér og mundi þá þurfa fé til þess alveg eins og Útvegsbankinn. Það mætti að vísu mæla fyrir því, að Landsbankanum væri fremur veitt þessi heimild, með því að segja, að honum sé betur stjórnað, hann hafi ríkisábyrgð, meira sparisjóðsfá og að ríkið hafi aðra aðstöðu gagnvart þeim banka. En þetta er þó ekki nein gild ástæða. Yfirstjórn bankanna er hin sama, og reglur um lán út á framleiðsluvörurnar hinar sömu hjá báðum, enda fullt samstarf milli bankanna um þá hluti. Ég veit líka, að Útvegsbankinn hefir ekkert gert til að brjóta af sér slíkt samstarf, heldur þvert að móti. Þannig var það að í byrjun síðustu vertíðar stóð á Útvegsbankanum með lánveitingar til útgerðar, þar sem hann vildi ekki veita þau fyrr en séð varð með vissu, að þau mundu verða endurgreidd. Það er vitanlega skylda, sem varðar báða bankana jafnt, að lána varlega fé sitt. En hitt tel ég sama, hvor bankinn veitir hin nauðsynlegu rekstrarlán vegna atvinnuveganna. Eins og fyrirkomulagi á bankarekstri hér er háttað, þá verður það ávallt ríkið, sem að síðustu ber ábyrgðina á öllu saman.

Ég skal geta þess, að ég skil ekki bréf bankastj. Landsbankans svo, að þeir telji ekki horf á að taka þau lán, sem brýn þörf er á vegna atvinnuveganna. Ég veit, að Útvegsbankinn hefir leitað til Landsbankans um endurkaup á fiskvíxlum, en fengið neitandi svar við þeirri málaleitun, enda þótt Útvegsbankinn hafi sömu útlánsreglur og Landsbankinn. En þegar Landsbankinn gefur þau svör, þá má hann ómögulega segja, að hann sé því mótfallinn, að Útvegsbankinn fái nauðsynlegt fé eftir öðrum leiðum, og því síður, þegar Landsbankinn er heldur ekki sjálfur fær um að leysa þetta starf í þágu útgerðarinnar af höndum sjálfur. Ég skil þetta bréf stj. Landsbankans svo, að hún vilji með því gefa almennar reglur, sem gildi fyrir alla, að varhuga verði að gjalda við því fyrir alla að taka ný lán, nema í allra brýnustu þörf. Ég get heldur ekki skilið þetta bréf svo, að Landsbankinn geti ekki talið sín vegna neina þörf á því að taka það lán, sem till. er um, að heimilað sé hans vegna, heldur sé það gert vegna ríkisins. En nú er svo um þetta lán, að ætlazt er til, að það sé greitt upp í lok nóvembermánaðar. Getur því ríkinu ekki slíkt lán að gagni komið til afborgana og vaxtagreiðslu á sínum erlendu lánum. Ríkið hefir ekki gagn af öðru en löngum lánum til þeirra hluta, eða þá þeim peningum, sem inn koma fyrir seldar framleiðsluvörur. En slíkt lán sem þetta gerir Landsbankanum það hægara að standast yfirfærslur þær, sem –nauðsynlegar eru, eins og þær koma fram á hverjum tíma. Og þá ganga vitanlega greiðslur sjálfs hans vegna, ríkisins og bæjarfélaganna fyrir öllum öðrum. Það verður rýmra um bankann með slíku láni, þó stutt sé, en hinsvegar er það ekki fallið til greiðslu á skuldum ríkisins.

Ég skal ekki hæla því, hvernig farið hefir fyrir Íslandsbanka í þessum efnum, né neita því, að það sé skylda bankanna að haga svo útlánum, að sem minnst tap hljótist af, enda munu þeir hafa fullan vilja á því. En þetta viðfangsefni, að draga úr dýrtíðinni og minnka framleiðslukostnaðinn, getur hinsvegar ekki dregið úr því, að reynt sé að útvega peninga til að halda uppi atvinnurekstri í landinu.

Ég skal svo að lokum aðeins benda á það — og þar kemur fram aðalmunurinn á afstöðu okkar, minni og hæstv. dómsmrh. —, að ég legg áherzlu á það, að ríkið hafi skyldum að gegna gagnvart aðalbankastofnunum landsins, enda mun sú skoðun ríkjandi með flestum þjóðum. Lítum aðeins á, hvernig þessu er háttað í aðalnágrannalöndum okkar. Í Noregi hefir ríkið lagt fram stórfé til styrktar hinum stærri bönkum, þegar þeir hafa orðið illa úti. Síðast í vetur tók norska ríkið höndum saman við þjóðbankann um að bjarga tveim stórbönkum þar í landi. Hið sama hefir verið gert í Þýzkalandi. Þegar bankar hafa hallazt þar, hefir ríkisvaldið komið til aðstoðar. Í Danmörku var þetta sama gert fyrir nokkrum árum; þegar Landsmandsbankanum var bjargað. Og þótt miklar deilur væru um það á sínum tíma, heyrist engin rödd um það lengur nú, að ekki hefði verið rétt að bjarga bankanum, enda þótt til þess þyrfti mikið fé. Og bankinn er nú orðinn sterk stofnun. Nú síðast í Svíþjóð, þegar einn stórbankinn þar var í kröggum, hljóp ríkið undir bagga með 260 millj. kr. til þess að hjálpa honum yfir örðugleikana. Ástæðan var sú sama og annarsstaðar, að sænska stjórnin taldi þetta skyldu sína gagnvart þessari stofnun, sem erlent traust og atvinnurekstur heima fyrir hvíldi svo mjög á. — Þannig er það yfirleitt talið, að það kosti ríkið meira að lata slíkar stórar stofnanir velta heldur en þó að ríkið verði að rétta þeim verulega hjálparhönd. Þannig er nú litið á þetta í nágrannalöndum okkar, og er ekki að undra, þótt niðurstaðan verði sú hin sama hér. Við getum ekki gengið neinar aðrar brautir í þessu efni en fjárhagslega þroskaðar nágrannaþjóðir okkar gera. Við komumst aldrei upp úr öngþveitinu á þann hátt, að við leggjum árar í bát og hættum að hjálpa atvinnuvegunum, heldur verðum við að reyna að styrkja þá eftir megni, og fara þó gætilega. Og ég vona, að ekki verði frá þeirri braut horfið, sem er heppilegust bæði fyrir atvinnurekstur fólksins og tekjur ríkisins sjálfs.