20.05.1932
Efri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1958 í B-deild Alþingistíðinda. (2177)

528. mál, reksrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. þm. varð að játa, að hann átti töluvert mikinn þátt í lántökunni 1921, eins og það lán hefir nú líka reynzt giftudrjúgt fyrir landið. Hann ætlar að reyna að bjarga sér með því að segjast ekki hafa viljað það lán, sem tekið var, heldur lán til þess að bjarga krónunni. Þetta minnir mig á sögu af manni, sem stundum er búsettur hér í Reykjavík og oft er auralítill. Honum var einu sinni sýndur reikningur, þar sem hann var staddur á gildaskála. Hann bað þá um að koma með reikninginn daginn eftir og hafa hann í tvennu lagi. Þannig fékk hann greiðslufrest um einn dag. Eins er það með þessa undanfærslu hv. þm. En hann getur ekki komizt framhjá því, að hann vildi taka störf lán handa Íslandsbanka. Hann fékk þann vilja sinn uppfylltan. Lánið var tekið. Því var ráðstafað af vinum hans og vandamönnum. Það rann að langmestu leyti inn í Íslandsbanka. Hv. þm. fékk allt, sem hann vildi. En hvernig reyndust svo spádómar hans? Þeir fóru svo, að þratt fyrir lántökuna féll krónan niður fyrir hálfvirði. Lánið varð til hins gagnstæða. Það var að eyðslueyri, og krónan féll. Nú sést ekkert eftir nema skuldin, sem hvílir á borgurum landsins, og minningin um heldur lítinn heiður í sambandi við lántökuna erlendis.

Hv. þm. lét nokkur gremjuyrði bitna á mér fyrir það, að ég hefði sett Íslandsbanka á höfuðið. Hann neitaði ekki þeirri staðreynd, að ég hefi aldrei haft neitt með bankann að gera. Hann getur heldur ekki neitað því, að menn mjög nákomnir honum hafa stjórnað bankanum. Hann getur ekki neitað því, að bankinn hefir tapað a. m. k. 25 millj. kr. Það er þýðingarlaust að halda því fram, að þessar aðfarir hafi verið alveg saklausar og ekki snert hag bankans. Það, sem hv. þm. á við, er það, að ég og ýmsir aðrir sögðu, þegar við sáum stjórnina á bankanum, að það gæti ekki farið öðruvísi en illa. Við vöruðum við hættunni, en það var haft að engu, fyrr en um seinan, þegar bankinn var sprunginn fyrir aðgerðir forkólfa sinna. Ég skal nefna lítið dæmi af stjórn bankans. Bankastjóri sá, sem fenginn var að bankanum 1920, fékk 40 þús. kr. í laun. Hann fór venjulega utan einu sinni á ári til að hitta að máli viðskiptabankana. Ferðakostnaður hans var um 20 þús. kr. oftast nær. Einu sinni fór hann þó ofurlítið lengra en til Danmerkur, hann skrapp til Hollands; þá komst reikningurinn líka upp í 35 þús. kr. Það árið fékk hann því samtals um 75 þús. kr. fyrir sína prýðilegu stjórn. Þetta er aðeins lítið dæmi af því, sem hefir haft áhrif á hag bankans. Ég get skilið, að hv. þm. finnist, að allir þeir, sem hafa haft ótrú á þessu ráðagi, eyðsluseminni, stjórnleysinu um lánveitingar, hafi gert bankanum rangt til. Hann vildi láta þetta halda áfram, en almenning borga allt saman með auknum sköttum og háum vöxtum. Þetta er sú synd, sem hv. þm. getur réttilega heimfært upp á mig. Ég sá fyrir mörgum árum í hvert óefni stefndi með Íslandsbanka, og varaði við hættunni.

Sjálfur hefir hv. þm. ekki haft sérstaklega mikinn vegsauka af afskiptum sínum af bankamálum. 1923 kom fram á þingi till. um að rannsaka hag bankanna. Hv. þm. og vinir hans risu öndverðir gegn því og eyðilögðu málið. Upp úr því var stofnað embætti bankaeftirlitsmannsins. Það átti að vera sú trygging, er þjóðin hefði fyrir því, að bankarnir væru reknir sæmilega. Í embættið var hv. þm. valinn, og hann segir nú, að hann hafi ekkert gert, alveg eins og almenningur hefir litið á. Það liggja nú fyrir þinginu skilríki frá bönkunum, þar sem þeir segjast ekkert hafa orðið varir við starf hans, hann hafi ekki komið þar mánuðum og missirum saman, og þeir vilji losna við að borga honum. Varla hefir heldur mikil vinna farið í sparisjóðina, a. m. k. hafa menn ekki orðið varir við, að hann hafi ferðazt mikið til þeirra. Árangurinn af starfi hans hefir enginn orðið. Hann hefir engan aðvarað, hvorki þing, ríkisstj. né bankastj. Það var aðeins fyrir það, að hv. þm. var forfallaður um tíma og annar maður því settur í hans stað til að skoða útibúið á Seyðisfirði, að upp komst hið botnlausa eymdarastand þar og afrek íhaldsforkólfsins Stefáns Th. Jónssonar.

Þá talaði hv. þm. um hið merkilega húsdýr, nautið. Ég vil benda á, að það húsdýr hefir nú fengið sígilda merkingu í fjármalaumræðum. Vil ég út frá þessu benda hv. 1. þm. Reykv. á það, að hann getur jafnan minnzt Korpúlfsstaðanautsins, þegar hann hugsar um gengismálið, síðan hv. þm. G.-K. fann, að form. Íhaldsflokksins væri engri veru líkari, sökum skaplyndis og gáfnafars.