03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

297. mál, fjáraukalög 1931

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

ég er náttúrlega ekki kunnugur sumum þeim greinum, sem spurt er um, eins og skyldi, þar sem ég tók ekki við fjárstjórninni fyrr en í ágústlok eða septemberbyrjun, og hlýt því að vísa sumum hlutum, eins og t. d. athugasemdunum um snjóbílinn, til hæstv. atvmrh., og eins því, hvernig rafmagnsstöðin á Reykjum í Ölfusi er færð, eða hvar hún er færð. Að öðru leyti er mér ljúft að afla mér upplýsinga um þessa tvo hluti til 3. umr., ef þess er óskað.

Um 3. lið 3. gr., greiðslu fyrir samningu innflutningsskýrslna, samtals 2500 kr., hefir mér verið skýrt svo frá í ráðuneytinu, að hún hafi átt sér stað síðastl. 7 ár, og að það hafi verið byrjað á henni, eftir því sem mig minnir, í desember 1925, þegar Jón Þorláksson var fjmrh. Í haust, þegar þessar greiðslur byrjuðu að koma til, gaf ég skipun um það til skrifstofunnar að greiða þetta eftir sömu reglum og fylgt hefir verið. Þar sem n. telur, að fella megi niður þessi gjöld, þá er sjálfsagt að athuga, hvort það er hægt, með allri sanngirni, en ég hygg þó, að sýslumenn hafi fengið þessar aukagreiðslur vegna kostnaðar, sem þeir hafi haft af söfnun skýrslnanna. Þeir munu hafa fengið menn til að safna þessum skýrslum fyrir sig á hafnarstöðvum úti um sýslurnar, og orðið að greiða þeim þóknun fyrir, og þykist ég vita, að Jón Þorláksson, sem var fjmrh. 1927, hafi ekki stofnað til þessara nýju útgjalda að ástæðulausu. En það er sjálfsagt að athuga þetta nánar.

Um Bakkasel, eða 5. lið 5. gr., er það að segja, að því fé var öllu eytt 1930. En það skiptir ekki máli; greiðslan kom öll til útgjalda eftir að ég tók við fjármálaráðuneytinu, en þá var búið að framkvæma allt verkið, og ekki annað að gera en greiða upphæðina, þó þá væri. Um hitt, sem sagt hefir verið, að verkið hafi orðið dýrara en þurft hefði að vera, er bezt að spyrja vegamálastjóra, sem sá um alla framkvæmd þess. Um hitt tek ég alveg undir með hv. þm., að það er merkilegt, að ráð skuli vera búið að leggja í eitt heiðarkot annað eins fé og þetta.

Um 2. lið 6. gr., kirkjugarðinn í Rvík, er það að segja, að það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að í fjárlfrv. því, sem nú liggur fyrir þinginu, er engin slík fjárveiting, en það stafar af því, að það er nú lokið öllum greiðslum vegna kirkjugarðsins.

Sama er að segja um hlöðubygginguna Á Hvanneyri; henni var alveg lokið, er ég tók við, og sú ávísun, sem mér barst frá húsameistara, var frá 1930, og tjáði húsameistari mér, að þessa lokagreiðslu hefði dregizt að innheimta, einhverra hluta vegna, sem ég teI óþarft að skýra hér frá, en mun þó hafa verið m. a. vegna þess, að akkorðshafi hafi þótzt vanhaldinn af verkkaupinu og viljað fá uppbót og þurft hafi að gera þá hluti upp við hann áður en þessi lokagreiðsla færi fram.

Um 2. lið 10. gr., keyptar skrifstofuvelar handa gjaldheimtumönnum, er ég að vísu samþykkur hv. þm., að ef engin slík fjárveiting er fyrir hendi, þá á ekki að greiða slíka hluti. En ég skal geta þess um leið, að ég sé ekki, að það sé annað fært en að þingið sjái sumum gjaldheimtumönnum ríkisins fyrir nauðsynlegustu tækjum, sérstaklega þeim, sem eru dýr, eins og reiknivélar eru hjá sumum skrifstofunum, sérstaklega í kaupstöðunum, er svo mikið að gera, að til þess að afgreiðsla gangi þolanlega, er nauðsynlegt að geta haft fljótt reikningshald, bæði margföldun og samlagningu, svo ég sé ekki, að hjá því verði komizt að kaupa vélar til þess. En það er einkum á slíkum stöðum, sem þessar vélar hafa verið keyptar. Bæjarfógetinn í Vestmannaeyjum hefir keypt eina slíka vel og sent reikning fyrir henni til ráðuneytisins, en ekki fengið hann greiddan enn; ég vildi ekki greiða hann vegna þess, að það var engin heimild fyrir því að kaupa slíkan hlut. En þó þessi greiðsla dragist af þessum sökum, þá hygg ég, að ráðuneytið sleppi ekki við að greiða þennan reikning, sem mun vera 800 kr., sem engin heimild er fyrir, en hefði að vísu átt að fylgja. Hitt efast ég ekki um, að sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum þurfi að hafa slíkt tæki.

Ég hygg, að það séu ekki fleiri atriði, sem gefa mér tilefni til andsvara. En ég vil segja það, að hin almennu ummæli hv. þm. V.-Húnv. fellst ég alveg á. Fjáraukal., sem fara ekki eftir neinum föstum reglum, en safnað er á sumu af umframgreiðslum, sem eiga heima í hinum ýmsu gr. fjárl., en öðrum ekki, eru tilgangslaus. ég er sammála um það, að fjáraukal. eiga ekki að vera nema tvennskonar; fjáraukal. fyrir þeim umframgreiðslum, sem búið er að greiða, eiga ekki að vera nema ein. En eins og nú er háttað þingtíma, getur ekki fyrr en á næsta þingi komið fram fjáraukalagafrv. fyrir árið 1931, og hefði þá þetta frv. mátt flettast þar inn í. En það eru sérstaklega fjáraukal. um þá hluti, sem ennþá eru óframkvæmdir, sem þýðingu hafa, og ég álít það rangt, að það hefir fallið niður nú um langt skeið að bera fram fjáraukal. fyrir yfirstandandi ár. Ég fellst alveg á þetta, að það eigi að bera fram fjáraukal. fyrir yfirstandandi ár, en hitt sé þýðingarlaust, að vera að safna ýmsum umframgreiðslum á væntanleg fjáraukalög af handahófi.