03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

297. mál, fjáraukalög 1931

Magnús Guðmundsson:

það er rétt, sem hæstv. fjmrh. segir, að hann verður ekki krafinn reikningsskapar um þær greiðslur, sem farið hafa fram áður en hann tók við. En ég væri honum samt þakklátur, ef hann vildi útvega upplýsingar um þau atriði, sem hann veik til annara að svara, af því, að hvorugur hinna ráðh. er hér nú viðstaddur.

Að því er snertir innflutningsskýrslurnar, þá hélt ég, að það hefði ekki verið tilgangurinn að borga fyrir söfnun þeirra nema í byrjun, af því að þegar þær voru fyrst fyrirskipaðar, árið 1925, þurfti að safna skýrslum fyrir liðinn tíma, og það var auðvitað meiri fyrirhöfn að safna þeim eftir á en þegar það er gert jafnóðum. En það er ekki það versta, þó greitt sé fyrir þetta, heldur hve ráð kemur ójafnt niður. Sumir safnendur innflutningsskýrslna hafa fengið stórfé fyrir þær, sumir minna eða lítið, en flestir alls ekki neitt. hetta sýnist mér ekki vera rétt, og ég held, að þessi söfnun þurfi ekki að kosta nema lítið, en það vakti eftirtekt yfirskoðunarmanna á þessum greiðslum, hvað upphæðin var geysihá árið 1929, en þá mun hún hafa verið 12000 kr. Ég álít, að það sé engin meining í því t. d. að greiða sýslumanninum í Árnessýslu 300 kr. fyrir að safna þessum skýrslum. Hann er sjálfur búsettur í þeim eina stað í sýslunni, þar sem um innflutning getur verið að ræða, en svo eru aðrir, sem hafa marga aðflutningsstaði í sínu umdæmi, og þeir fá ekki neitt. þessu getur ekki verið rétt skipt, og það er m. a. vegna þess, sem bæði yfirskoðunarmenn, og að ég held fjvn. líka, telja þetta aðfinnsluvert.

Mjög svipað er að segja um reikningsvélarnar. Ég viðurkenni það, að það er gróflega erfitt að neita sumum embættismönnum um þessar vélar, eftir að aðrir hliðstæðir embættismenn hafa fengið þær; það getur ekki orðið réttlæti úr því. Þess vegna er það verra að hafa innleitt þennan sið, því að það er örðugra að kippa að sér hendinni á eftir.

Út af hinum almennu ummælum hv. þm. V.-Húnv. viðvíkjandi fjáraukal. yfirleitt, sem koma eftir sig, eins og þau alltaf eru — því allt er nú búið að greiða þetta — þá er það alveg rétt, að það er talsvert undarlegt að vera að hafa tvenn fjáraukalög; það er alveg nóg að hafa ein fjáraukalög og öll eftir á í einu lagi. Nú, en að því er snertir þá aths. hv. frsm., að þetta fyrirkomulag sé til þess að rugla á milli liða, þegar til landsreikningsins kemur, þá er það náttúrlega rétt, ef LR. er færður eins og hann er færður nú, en það er vel hægt að skipta þessum upphæðum, sem eru í þessu frv., niður að tilsvarandi greinar í LR., því þessar upphæðir eru einmitt sundurgreindar á sama hátt og í fjárl., og það væri vel hægt að hafa í lið við hverja grein landsreikningsins, sem héti: Nýr liður: Samkvæmt fjáraukalögum 1932 . . . . t. d. Með því móti væri hægt að fá alveg rétt yfirlit yfir skiptingu gjaldanna.

Í seinni tíð er það alveg lagt niður að koma með fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár, og hygg ég, að því hafi verið hætt af því, að það vildi brenna við, að það kæmi nokkuð mikið inn á slík lög, en það er þó talsvert betra fyrir stj. að fá heimild til slíkra greiðslna, sem nauðsynlega þurfa að fara fram. En ég gæti trúað því, að hefði á undanförnum árum verið bornar fram till. um sumar þær greiðslur, sem stj. hefir innt af hendi, þá hefði það orðið erfitt að fá þingið til að ganga inn á þær. Ég tel, að það væri nokkur trygging í því, að stj. kæmi á hverju þingi með fjáraukal. fyrir yfirstandandi ár, og að stj. forðaðist svo, eins og frekast væri unnt, að borga út upphæðir, sem engin fjárveiting væri fyrir, þangað til þingið væri komið saman og segði til . Það getur auðvitað komið fyrir, að það sé ekki unnt að draga einhverja greiðslu svo lengi, en í mörgum tilfellum hefir það verið hægt.