03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

297. mál, fjáraukalög 1931

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Áður en frv. kemur til 3. umr. skal ég afla mér upplýsinga um færslu Reykja, en um snjóbilana er ekki neinna frekari upplýsinga að leita, en það má náttúrlega ræða fram og aftur um reksturinn á þeim. Nú var það lagt fyrir vegamálastjóra að sjá um, að það yrði sem minnstur kostnaður af þeim á síðastl. vetri, en það reyndist auðvitað ókleift að hafa svo háan taxta, að þeir bæru sig. Hver niðurstaðan hefir orðið, veit ég ekki, en í framtíðinni verður að halda sér við fjárveitingu að því er snertir kostnaðinn, og yrði þá að minnka notkun bilanna, því taxtana er ekki hægt að hækka að verulegum mun.

Fyrir söfnun innflutningsskýrslna 1930 hefir engum sýslumanni verið greitt stórfé. (MG: Ég á við 1929). Nú, já, en ég má segja, að það hefir enginn fengið hærra fyrir þetta aukastarf en 600 eða 700 kr. Það er auðvitað, að þessi greiðsla á að vera réttlát, en þá verður einmitt ekki komizt hjá, að fjárhæðirnar verði mismunandi, sem greiddar eru hverjum einstökum. Það verður meira af fénu að ganga til þeirra sýslumanna, sem hafa mörg þorp, sem þeir ná ekki sjálfir til að safna í, en hinna. En það væri rétt að setja eitthvert hámark á það, hvað mætti greiða fyrir þetta, og greiða svo eftir reikningum sýslumanna, sem ættu að senda með kvittaða reikninga frá þeim aðstoðarmönnum sínum, sem skýrslurnar hefðu innheimt, og fá aðeins þá reikninga endurgreidda. Hvort lækka mætti þennan lið frá því, sem hann var 1930, eða úr 2500 kr., veit ég ekki, en hafi hann verið 12000 kr. 1929, þykir mér heldur ólíklegt, að veruleg lækkun geti átt sér stað á honum.

Annað þarf ég ekki að segja að þessu sinni.