18.05.1932
Neðri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1992 í B-deild Alþingistíðinda. (2247)

62. mál, kirkjugarðar

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Ég held mér sé óhætt að fullyrða, að engin menningarþjóð sýni legstöðum framliðinna eins litla umhirðu og ræktarsemi og við Íslendingar. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hvernig hirðing grafreitanna hér á landi er og hvað heim er víða lítill sómi sýndur. Útlendingar, sem hér ferðast um, telja það einna mest áberandi vottun um hirðuleysi okkar og jafnvel skrælingjahátt. Mþn., sem starfaði að kirkjumálum, var fullkomlega ljóst, að á þessu þarf að róða bót sem allra fyrst, og það frv., sem hér liggur fyrir, er einmitt árangurinn af starfi hennar í þá átt. V. sá, að sníða þurfti upp nýja löggjöf um þetta efni, sem a. m. k. væri byrjunarspor í þá átt að ráða bót á þessu ófremdarástandi, en sem væri þó ekki of erfitt fjárhagslega fyrst í stað. Frv. þetta hefir legið fyrir þinginu áður, og nú er það búið að ganga í gegnum hv. Ed. án nokkurra breytinga, svo ég býst ekki við, að þörf sé á að rekja innihald þess nákvæmlega.

Helztu nýmælin, sem í frv. felast, eru þau, sem nú skal greina: Í 2. gr. er svo ákveðið, að kirkjugarðar þjóðkirkjunnar skuli vera sjálfseignarstofnanir, sem hafi sérstakt fjárhald. Það er vitanlega fyrsta skilyrðið til þess, að hægt sé að koma einhverju skipulagi á hirðingu og eftirlit kirkjugarðanna, að heim sé séð fyrir sérstöku fjárhaldi, en það hafa þeir yfirleitt ekki haft hingað til.

Ætlazt er til, að kirkjugarðarnir verði undir umsjón sóknarnefndanna eins og verið hefir, nema ef bæjarstjórn eða hreppsnefnd óskar sérstaklega eftir því, þá eiga þær að geta fengið að taka yfirumsjón með þeim í sínar hendur og skipa yfir þá sérstaka kirkjugarðsstjórn.

Í 3. gr. frv. eru ákvæði um það, hversu bæjar- og sveitarfélögin skuli styðja að því í byrjuninni, að hægt sé að koma betra skipulagi á kirkjugarðana og hirðingu þeirra en verið hefir; t. d. eiga þau að leggja til ókeypis hæfileg garðstæði og efni í girðingar um þau, og yfirleitt að haga þannig til, að sem hægast verði að prýða grafreitina og hirða um þá á allan hátt.

Í 7. og 8. gr. er ákveðið, að skipulagsuppdrættir skuli gerðir fyrir alla nýja kirkjugarða og aðra þá, sem nota má til frambúðar. En það mjög nauðsynlegt, ekki einungis til þess að hægara sé að hirða um þá og smekklegar sé frá þeim gengið, heldur einnig til þess, að hægt sé að vita með vissu, hvar hver hinna framliðnu á legstað. En það er nú á hinni mestu ringulreið, því fljótt fyrnist yfir slíka hluti, ef ekki er til skipulegur uppdráttur af grafreitunum, þar sem merkt er við hvert leiði. Á uppdráttum af eldri kirkjugörðum á að marka fyrir þeim leiðum, sem nýleg eru, og skrásetja, hverjir þar hvíla, eftir því sem bezt verður vitað.

Í 11. gr. er ákvæði um viðhald og hirðingu grafreitanna, og er sóknarnefndunum lagt á herðar að sjá um það. Er þeim veitt heimild til þess að setja fastar reglur um allt fyrirkomulag innan garðsins, um hvernig girðingum kringum leiði er fyrir komið o. s. frv.

Í 15. gr. er það nýmæli, að skógræktarstjórn landsins skuli skylt að láta í té ókeypis trjáplöntur til gróðursetningar í kirkjugörðunum. Það ætti ekki að verða þung kvöð, en gæti orðið til þess að ýta undir, að meira verði gróðursett af trjám í grafreitunum, en fatt er þar til meiri prýði.

16. gr. eru fyrirmæli um það, að ef í einhverju prestakalli er 1/3 hluti eða meira af íbúunum í utanþjóðkirkjusöfnuði, þá skuli sóknarnefndir safnaðanna beggja kjósa sérstaka kirkjugarðsstjórn úr sínum hópi, eftir mannfjölda hvors safnaðarins fyrir sig. Er þetta aðallega miðað við Reykjavík. Virðist það í alla staði eðlilegt, að umhirðu og stjórn grafreitsins sé þannig skipt milli safnaðanna, sem nota hann sameiginlega.

Í 17., 18. og 19. gr. eru fyrirmæli um stofnun legstaðasjóða í sóknunum. Er tilætlunin að þeir, sem vilja, geti lagt fé í sérstakan sjóð til viðhalds legstöðum ástvina sinna. Eiga slíkir sjóðir að ávaxtast undir stjórn sóknarnefndanna og eftirliti prófasts. Með þessu er stuðlað að því, eftir því sem hægt er, að einnig í framtíðinni verði haldið sæmilega við þeim leiðum, sem menn vilja einhverju fórna fyrir.

Þá eru í 20.–25. gr. ákvæði um niðurlagða kirkjugarða. Skulu þeir friðaðir og lögð meiri rækt við þá en verið hefir, undir umsjón biskups og jafnframt fornmenjavarðar, sem eðlilegt er, að líti eftir slíkum hlutum.

Í 29. gr. og næstu greinum þar á eftir eru alkvæði um, hvernig fjárhag kirkjugarðanna skal hagað. Er nauðsynlegt, að gerð sé fjárhagsáætlun fyrir þá um hver áramót eins og þar er ákveðið. Sóknarnefnd á að vera heimilt að taka upp legkaup í sókn sinni, að fengnu samþykki safnaðar og héraðsfundar. En hrökkvi ekki tekjur kirkjugarðsins fyrir útgjöldum hans, skal jafna því, sem til vantar, niður á útsvarsgreiðendur í sókninni sem hundraðssgjaldi af útsvörum þeirra. Er það eðlilegt, að bæjar- og sveitarfélögin beri byrðarnar af viðhaldi grafreitanna, því það eru sumstaðar allmargir utan safnaðanna, sem þó eiga eftir lögum þessum rétt til legstaðar í grafreitum þeirra.

Um heimagrafreiti eru ákvæði í 33. og 37. gr. N. fannst ekki ástæða til að rýmka um það, að hægt væri að hafa heimagrafreiti, eða ýta undir, að það væri gert meira að því en átt hefir sér stað. því vitanlega verður það ætíð til þess, að kirkjugörðum safnaðanna er minni sómi sýndur, ef margir eru grafnir annarsstaðar, og svo er auk þess hætt við, eins og dæmin sýna víða um land, að heimagrafreitum sé ekki lengi sómi sýndur. Sérstaklega er hætt við, að þeir lendi í óhirðu þegar ábúendaskipti verða á jörðunum og nýjar ættir setjast þar að. Þó fannst n. ekki heldur rétt að reisa algerlega skorður við því, að menn gætu fengið að koma upp heimagrafreitum, en setti hins vegar ákvæði um það, að hver, sem það vill gera, verði að leggja fé í sjóð reitnum til viðhalds um leið og hann fær leyfi til að koma honum upp. jafnframt eru heimagrafreitir settir undir eftirlit prófasts og yfirumsjón biskups, eins og aðrir grafreitir.

Að lokum eru svo nokkur niðurlagsákvæði, m. a. um, að setja megi reglugerð um allt nánara fyrirkomulag, eftir því sem reynslan sýnir, að heppilegast muni verða.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en vænti þess, að hv. d. hjálpi til þess, að frv. fái fljóta og góða afgreiðslu.