18.05.1932
Neðri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1997 í B-deild Alþingistíðinda. (2249)

62. mál, kirkjugarðar

Steingrímur Steinþórsson:

Ég er sammála hv. frsm. um það, að hér sé um nauðsynjamál að ræða. Kirkjugarðarnir eru í hinni megnustu vanhirðu og sjálfsagður menningarvottur að bæta úr því ástandi. En þó vil ég gera nokkrar aths. við einn kafla frv., þann, er ræðir um heimagrafreiti. Um þá eru settar svo strangar reglur, að heita má, að girt sé fyrir, að þeir verði notaðir. Ég álít, að hetta sé alls ekki rétt. Ýmsir óska heimagrafreita til að geyma jarðneskar leifar dáinna ættingja. Ég sé enga ástæðu til að amast við því, eða girða næstum fyrir það, eins og hér er gert.

Í frv. er gert ráð fyrir, að sá, sem óskar heimagrafreits, greiði 600 kr. í legstaðasjóð kirkjugarðsins, reitnum til viðhalds. Auk þess er lagt á vald ráðuneytisins, að það geti hækkað þessa upphæð ótakmarkað. Þetta nær auðvitað engri átt. Upphæðin er miklu hærri en þörf er á.

Hv. frsm. lýsti þeirri óhirðu, sem er á kirkjugörðunum. Ég þekki hinsvegar ágæta umgengni í heimagrafreitum, enda er eðlilegt, að svo sé. Ættingjarnir líta á þennan reit sem helgan stað og auk þess er betri aðstaða til að hlúa að heimagrafreit en kirkjugarði. Ég býst við að koma með brtt. um þetta atriði viði 3. umr., sem gangi í þá att, að upphæðin verði lækkuð og að ekki verði lagt á vald ráðuneytisins að geta hækkað hana takmarkalaust. Líka mætti koma þessu svo fyrir, að þeir, sem kæmu sér upp heimagrafreit, veðsettu jörð sína að einhverju leyti fyrir ákveðinni upphæð, er gengi til viðhalds reitnum. Þetta væri í rauninni betra en að leggja fram fé í eitt skipti fyrir öll, enda hefir þessu áður verið hagað svo, að þeir, sem hafa fengið leyfi til að hafa heimagrafreit, hafa veðsett jörð sína að einhverju leyti. Ég vildi gjarnan heyra álit hv. frsm. um það, hvort hann gæti fallizt á þessa breytingu.

Í 37. gr. er gert ráð fyrir, að prófastur hafi eftirlit með grafreitunum. Mér finnst eðlilegast, að sóknarprestur hefði þetta eftirlit. Með því væru mönnum spöruð óþörf útgjöld, því að prófastur tekur laun fyrir skoðun heimagrafreita samkv. verðlagsskrá, og mun það nema um 20 kr. í hvert skipti. Sóknarprestur ætti hinsvegar að geta gert þetta ókeypis sér að meinalausu.

Ég mun við 3. umr. bera fram brtt. við 35. gr. um það, að annaðhvort verði fjárhæðin lækkuð til muna eða menn setji veð í jörð til tryggingar viðhaldi heimagrafreita. Vildi ég heyra, hvort væri líklegra til framgangs.