18.05.1932
Neðri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2000 í B-deild Alþingistíðinda. (2251)

62. mál, kirkjugarðar

Steingrímur Steinþórsson:

Það er allmikill meiningarmunur á milli mín og hv. frsm. í þessu máli. Hann vill gera allt, sem hægt er, til að hindra, að heimagrafreitum fjölgi. En ef menn óska að geyma jarðneskar leifar ættingja sinna heima hjá sér, sé ég enga ástæðu til að neita þeim um það.

Hv. þm. sagði, að það myndi spilla fyrir mektarsemi við kirkjugarðana, ef heimagrafreitum fjölgaði. En ég sé ekki, hvernig það má verða, þar sem eigendum heimagrafreita er ætlað að greiða full gjöld til kirkjugarða. Þeir verða því að taka á sig þá skyldu að greiða tvöföld gjöld. Ég álít þetta ósanngjarnt, en mun þó ekki bera fram till. um að breyta því. Ég held, að þetta ákvæði út af fyrir sig sé næg trygging fyrir því, að menn stofni ekki til heimagrafreita, nema áhugi og vilji sé til góðs viðhalds. Hitt er rétt, að ábúendaskipti geta orðið á jörð og að reitunum verði þá ekki haldið við. Því þarf sjóður að vera til í því skyni. En 600 kr. er allt of há upphæð. Eftir 14–15 ár verður hún orðin 1200 kr., því að ekkert viðhald þarf fyrstu árin. Eftir 30 ár verður þetta orðin há upphæð. Ég ætla, að 200 kr. verði alveg nóg. Ég get ekki fallizt á skoðanir hv. frsm. um að takmarka tölu heimagrafreita og mun ég því bera fram tillögu til lækkunar á upphæðinni.

Um eftirlit prófasta lét hv. frsm. í ljós, að það væri formsatriði, en þá á líka að vera óþarft að greiða sérstakt gjald fyrir. Og það er allmiklu þyngra fyrir stór heimili að þurfa að greiða slíkt gjald til prófastsins en að greiða þau til sinnar eigin kirkju. En þetta er í mínum augum miklu minna virði en hitt, og sé ég ekki ástæðu til að fara út í neina kappræðu um þetta.