20.05.1932
Neðri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

62. mál, kirkjugarðar

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Hv. annar flm. brtt. þeirra, sem fyrir liggja, endaði mál sitt með því að vonast til, að hv. deild samþ. brtt., því að þar væri ekki verið að gera annað en að lögfesta venjur, sem gilt hefðu langa stund um meðferð heimagrafreita, og virðist mér hann með því sé að beina til hv. þdm., að ekki sé vert að leggja inn á nýjar brautir í þessu efni. En ég hygg ekki, að þær venjur, sem gilt hafa um meðferð kirkjugarða, hafi reynzt svo vel né heimagrafreitir verið í því ástandi, að ekki megi um bæta. Og ég get sannfært hv. 1. þm. S.-M. um, að með frv. er verið að reyna að færa í lag það, sem ábótavant hefir verið að undanförnu. Það, sem vakti fyrir okkur, er um frv. höfum fjallað, var það, að nýmælin, sem sett eru um heimagrafreiti, mundu geta umbætt alla meðferð þeirra, svo að þeir verði ekki framvegis til slíkrar vanvirðu og að undanförnu.

Hv. 1. þm. S.-M. fannst einkum óeðlilega hörð ákvæði þau, sem sett eru að skilyrði fyrir því að taka upp heimagrafreiti og taldi, að í flestum tilfellum mundi reyndin verða sú, að menn hættu við að taka þá upp. Ég hefi tekið það fram áður, að æskilegt væri að hafa ákvæðin þannig, að þau ýttu ekki undir menn að byggja grafreiti á jörðum sínum. Og ég held, að brtt. þær, sem fyrir liggja á þskj. 777, verði ekki til að bæta um í því efni.

Ég ætla þá að snúa mér að brtt. og taka þær í þeirri röð, sem þær eru. Fyrsta brtt. er við 34. gr. Þar er sú breyt. gerð, að í stað þess, að beiðni um heimagrafreit fylgi vottorð héraðslæknis komi: „vottorð hreppstjóra eða tveggja skilríkra manna um það, að staður sé vel valinn“. Nú er langt frá, að ég beri vantraust til hreppstjóranna, þó að ég haldi fram, að þessi breyt. sé sízt til bóta. En ég vil benda á, hvað athuga þarf þegar grafreitur er tekinn upp. Það er ekki fyrst og fremst, að staðurinn liggi fallega, heldur er mesta nauðsyn að gæta þess vandlega, hvort ekki geti stafað hætta af honum fyrir heilbrigði manna, og um það er hreppstjórinn ekki bærari að dæma en hver annar. En þá er staðurinn sérstaklega vel valinn, ef gætt er allra heilbrigiðisreglna og hreinlætis og öll smitunarhætta útilokuð, en til að dæma um það verður maður að álíta, að héraðslæknir sé sjálfkjörinn. Ég vona því, að hv. þdm. fallist aldrei á þessa brtt. og láti 34. gr. óbreytta standa.

Þá er næsta brtt., við 35. gr., um að gera vægari skilyrðin um viðhald heimagrafreita og mönnum hægara fyrir um upptöku þeirra. Báðar þessar breyt. tel ég til skemmda, og 150 kr. stofnsjóður er hvergi nærri fullnægjandi til að tryggja sómasamlegt viðhald grafreits í umsjón vandalausra manna. Ég hygg, að veiti alls ekki af þeirri upphæð, sem er gert ráð fyrir í frv. sjálfu.

Þá minntist hv. 1. þm. S.-M. á b-lið 2 brtt., um að eigendur heimagrafreita greiði hundraðsgjald í kirkjugarðssjóði stað legkaups til sóknarkirkju. Það liggur nú í hlutarins eðli, að þeir, sem heitnagrafreit eiga, greiði ekki legkaup. (SvÓ: Það hefir verið svo). Nei, því að legkaup er greitt um leið og legstaður er fenginn. (SvÓ: Þetta er þó gert). Það getur alls ekki verið.

Þá leggja þeir til, að 36. gr. verði felld niður úr frv. En ég skil ekki, hvaða ástæða er til þess að krefjast ekki hins sama eftirlits með heimagrafreitum eins og kirkjugörðum. Þeir, sem stofnað hafa til heimagrafreita á jörðum sínum, og ættingjar þeirra geta vitanlega fallið frá, og þá taka vandalausir við. Þá get ég ekki séð, að það sé þýðingarlaust að hafa eftirlit með því, hvernig hinir nýju ábúendur rækja skyldur sínar um að halda vel við grafreitunum. (SvÓ: Það er fyrir því séð með brtt. okkar). Nei, það er ekki séð fyrir því. Í brtt. er aðeins talað um, að lögð verði hæfileg upphæð í legstaðasjóð sóknarinnar til viðhalds heimagrafreitnum, og er lágmark hennar mikið lækkað frá því, sem er í frv.; að öðru leyti má hver og einn ráða, hve mikið hann leggur fram til viðhaldsins. En á eftirlitsskyldu ábúanda með grafreitnum er ekki minnzt.

Um ferðakostnað og daglaun til prófasts fyrir að líta eftir því, að heimagrafreitum sé vel við haldið, er það að segja, að ég sé ekki ástæðu til að fella það niður. Ég hygg, að það sé ósanngjarnt að leggja þá skyldu á prófast að annast eftirlitið án þess að hann fái nokkra þóknun fyrir það. Annars er það ekkert aðalatriði fyrir mér, að öðru leyti en því, að ég hygg að það tryggi betur eftirlitið, ef þóknun er greidd fyrir það, því að prófastur getur haft nokkur útgjöld af slíkum ferðalögum. (LH: Ég álít, að það eigi ekki að stofna til þess kostnaðar). Jú, ég hygg, að eftirlitsstarf prófasta sé nauðsynlegt; eftirlit þeirra um viðhald kirkna og grafreita hefir komið að miklu liði, jafnvel þar, sem sóknarprestar hafa verið áhugasamir um þau mál.