20.05.1932
Neðri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2005 í B-deild Alþingistíðinda. (2257)

62. mál, kirkjugarðar

Sveinn Ólafsson:

Ég get látið mér í léttu rúmi liggja þau mótmæli, sem fram hafa komið gegn brtt. okkar hv. 1. þm. Skagf. Þó þykir mér ástæða til að leiðrétta ýmislegt í ræðu hv. 2. þm. Rang.

Hann lét orð falla á þá leið, að heimagrafreitir einstakra manna mundu ekki þannig hirtir, að vanþörf væri á opinberu eftirliti með þeim. Ég þekki nokkra af þessum grafreitum og hefi einn á heimili mínu, sem að vísu er gamall kirkjugarður. Þessir grafreitir allir líta vel út og eru betur hirtir og meira skreyttir en flestir kirkjugarðar, sem ég hefi séð. Slíkt er líka ofur skiljanlegt, þar sem eigendur jarðanna eru vandamenn hinna látnu, sem í grafreitunum hvíla, og er eigendum tíðast metnaðarmál að halda reitunum vel við og láta sér því annt um að prýða þá. Ég vil ekki tefja tímann á því að lýsa þessu nánar, en gæti nefnt 5–6 heimagrafreiti, sem allir eru langtum fremri og prýðilegri að öllu útliti en flestir sóknakirkjugarðar.

Hv. 2. þm. Rang. fannst brtt. við 34. gr. að því leyti athugaverð, að þegar velja skal stað fyrir grafreit, þá er ætlazt til, að leyfisbeiðninni fylgi vottorð hreppstjóra eða tveggja skilríkra manna um, að staður sé vel valinn, í stað þess, að í frv. er gert ráð fyrir umsögn eða vottorði læknis. Þetta taldi hv. þm. ekki hættulaust. Flestum grafreitum man hafa verið valinn staður hér á landi án þess að læknar hafi verið til þess kvaddir, enda held ég, að læknar séu ekkert færari til þess en aðrir. Allir skynbærir menn vita það, að grafreitir mega ekki vera nálægt vatnsbólum, og almennt virðist goldinn varhugi við því, að velja heim slíka staði, en læknar hafa ekki betri skilyrði en staðkunnugir menn aðrir til þess að segja fyrir um annarskonar hættur af grafreitum. Hitt er víst, að ef kveðja þarf lækni til þess að velja grafreitum staði, þá eykur það oft kostnaðinn að miklum mun, og lýtur það, eins og fleira í frv., að því að torvelda framkvæmdir fyrir þá menn, sem vilja koma upp heimagrafreitum. (SvbH: Fylgir ekki kostnaður því að láta hreppstjóra skoða slíka staði?). Enginn kostnaður þarf að vera því samfara; hreppstjórar eru venjulega á næstu grösum og auðvelt að ná til þeirra. Og þótt hreppstjóri hafi ekki sérstök skilyrði til þess að velja slíka staði fremur en aðrir skynbærir menn, þá nýtur hann að jafnaði almenns trausts í byggðarlaginu, og mundi því meiru skipta að fá álit hans og vottorð um staðinn en einhvers óvalins manns.

Að upphæð sú, sem hlutaðeigendum er ætlað að leggja fram til viðhalds heimagrafreitum samkv. till. okkar, sé of lág, hygg ég á misskilningi byggt. Gera má ráð fyrir, að þessi upphæð, 150 kr., gefi 8–10 kr. í vexti árlega, og virðist það nóg til þess að halda við girðingu um 50–60 m2 reit, og jafnvel girðingu um þó að um 100 m2 væri að ræða. Ég þekki einmitt viðhaldssjóði, sem eru ekki stærri eða aðeins lítið eitt stærri en þetta.

Að því er snertir laun fyrir eftirlit prófasts með heimagrafreitum, þá hefi ég áður tekið það fram, að ég álít með öllu óþarft að ætla honum sérstök ómakslaun vegna þess eftirlits, enda þótt hann þyrfti að leggja lykkju á leið sína einstöku sinnum til þess að líta á grafreit. Víðast mundu þeir staðir vera nærri leið prófasts þegar hann vísiterar kirkjur, og skiptir þá ekki miklu fyrir hann, þótt hann komi við á slíkum stoðum. Yfirleitt má gera ráð fyrir því, að heimagrafreitir verði vel hirtir og líti vel út, af því að það er bæði metnaðarmál og tilfinningamál fyrir eigendur.

Hv. 2. þm. Rang. taldi óþarft að fella 36. gr. Hann hefir því ekki tekið eftir því, að fyrirmæli hennar um eftirlitið eru tekin upp í 2. brtt. okkar á þskj. 777, við 35. gr. frv. þar er líka gert ráð fyrir því, að stofnandi grafreits geri með skipulagsskrá aðra skipun um eftirlit og viðhald en þá almennu. Þegar skyldur eru lagðar á einstaklinga og sérstök stjórnarvöld með skipulagsskrá, þá virðist óþarft að bæta við dýru eftirliti, með því að greiða próföstum sérstakt kaup fyrir að líta eftir grafreitum á ferðum þeirra.