20.05.1932
Neðri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2008 í B-deild Alþingistíðinda. (2259)

62. mál, kirkjugarðar

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Þeir tveir hv. þm., sem talað hafa nú síðast. leggja áherzlu á, að 1. brtt. á þskj. 777 verði samþ. þeir lofa mjög hreppstjórana, og eru sennilega báðir hreppstjórar, hvor í sinni sveit. (LH: Það er ég ekki). sé það svo, að allir hreppstjórar, sem eiga sæti hér í þd., leggi mikla áherzlu á þann vegsauka, sem þeim er ætlaður samkv. brtt., þá þýðir víst ekki að eyða tíma til þess að tala á móti þeim, því að þeir eru hér svo margir. En ég hygg, að það sé ekkert last um hreppstjórana eða vantraust á þeim, þó að ég haldi því fram, að ég treysti héraðslæknum betur til þess að velja staði fyrir grafreiti, t. d. frá sjónarmiði heilbrigðismála. Læt ég svo þá hv. þdm., sem ekki eru sjálfir hreppstjórar, um að ákveða, hvort heppilegra er í þessu efni, að læknir eða hreppstjóri gefi vottorð um þessa staði. Ég sé ekki, að meiri. kostnaður þurfi að fylgja því, þó að læknir líti á þessa staði fremur en hreppstjóri, því að læknar eiga svo oft ferðir um héruð sín í embættiserindum.

Ég sé ekki ástæðu til, að þingið amist við því, að prófastar fái þóknun fyrir eftirlit með grafreitum, a. m. k. sem nemur ferðakostnaði, og þarf ég ekki að fara fleiri orðum um það.

Ég er algerlega ósammala hv. þm. V.-Sk. um, að grafreitir eigi að vera sem víðast um sveitir landsins, af því að ég veit, að þeir verða þá í meiri óhirðu, því fleiri sem þeir eru, og sú vanhirða hefir verið nóg áður. Það er vitanlega rétt hjá honum, að landrýmið er nægilegt til þess, en það skiptir ekki mestu máli, heldur hitt, að skipulagið á grafreitunum og meðferð þeirra geti batnað, svo að það verði þjóðinni ekki til jafnmikillar smánar og verið hefir.

Það er ekki rétt hjá hv. þm., þegar hann er að bera saman meðferð á heimagrafreitum og kirkjugörðum, að vitna til þess, þar sem hirðing á heimagrafreitum er ágætust, en hinsvegar þar, sem leifar gamalla kirkjugarða hafa verið herfilega vanræktar; slíkt er ósambærilegt. Vanhirða á gömlum kirkjugörðum ber aðeins vott um menningarsnið þjóðarinnar og galla, sem þessum lögum er ætlað að bæta úr, og vitanlega er hún okkur til viðvörunar, en ekki eftirbreytni, eins og hv. þm. vildi vera láta. Ég hygg, að það sé hvergi önnur eins vanhirða á kirkjugörðum og hér á landi, svo að ég treysti því, að hv. þdm. sjái, hversu mikil þörf er að bæta um í því efni, og lati það ekki róa í sama farinu og áður. Ég vænti því, að þeir hv. þdm., sem ekki vilja leyfa sömu óregluna og áður hefir ríkt, felli þessar brtt. Ég hygg, að sé búið að koma greinilega í ljós, að þær venjur, sem gilt hafa í þessum efnum, eru gersamlega óhafandi.