06.05.1932
Neðri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2011 í B-deild Alþingistíðinda. (2268)

364. mál, útflutningur á nýjum fiski

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Ennþá er lítil reynsla fengin um framkvæmd laga þeirra, sem sett voru á þinginu síðasta um útflutning og sölu ísfiskjar. En þar, sem þessar tilraunir hafa gefið beztan árangur, sýna þær ótvírætt, að með slíkri aðferð við útflutning fiskjar frá smábátunum er hægt að gera sjávarútveginum ómetanlegt gagn. Þessar tilraunir, sem hófust síðastl. haust, eru vitanlega á byrjunarstigi enn, og hafa tekizt misjafnlega, en þó yfirleitt heldur vel. Að árangur tilraunanna hefir sumstaðar orðið lakari en búizt var við, stafar eingöngu af ónógum undirbúningi eða ókunnugleika á þessari meðferð fiskjar, enda var ekki byrjað fyrr en svo seint í fyrrahaust, að ekki var hægt að koma við nægum viðbúnaði. Aðaltilraunin var gerð á Austurlandi, af Fisksölusamlagi Austurlands, með tveim skipum, sem ríkisstjórnin leigði, og má af henni nokkuð marka um þessa starfsemi yfirleitt. Mér þykir rétt að taka upp úr skýrslum sambandsins nokkrar tölur til skýringar.

Alls voru 12070 kassar sendir út á vegum sambandsins, og seldust þeir fyrir 194920 kr., eða hver kassi á 16,10 kr. Þessi sala verður að teljast góð, sé hún borin saman við verð fiskjar hér á landi, hvort sem er nýr eða saltaður. Eins og kunnugt er, er ísfiskurinn aðeins slægður og kældur, og er því verkunin alls ekki sambærileg við saltfiskverkun. Þetta fiskmagn, sem þarna var selt, samsvarar sem næst 1440–50 skippundum af fullverkuðum saltfiski. Eftir verði á fiski síðastl. haust — en þetta voru fremur ódýrar fisktegundir, þyrsklingur, ýsa og dálítið af steinbít — mundu þessar fiskbirgðir hafa selzt á 86880 kr. komnar á skipsfjöl. En frá þeirri upphæð verður að draga salt og verkunarlaun, umbúðir, útflutningsgjald og fleira, sem alls mundi nema um 18000 kr. Mundi því hið hreina söluverð hafa numið sem næst 69 þús. kr. Hinsvegar má með mjög sennilegri áætlun gera verkunar- og sendingarkostnað við ísfiskinn með sölulaunum, umbúðum og útflutningsgjaldi 85 þús. kr., og mundi þó eftir vera af söluverðinu (194920 kr.) um 110 þús. kr., eða fullkomlega 1/3 meira en fengizt hefði með því mótinu að fullverka fiskinn.

Þó að þessar tölur séu fáar, gefa þær þó ljósa bendingu um það, með hvaða ávinningi er hægt að selja fisk í þessu ástandi og hvað mikil þörf er á því að létta undir með slíkum útflutningi, ekki sízt þar, sem bátaútgerð er mikil, en býr við þröngan kost eins og nú. Sjútvn. er einhuga um að leggja til, að þessum tilraunum um úflutning ísfiskjar verði áfram haldið, en í n. er lítilsháttar skoðanamunur um aðferðir, og bera 2 hv. nm. fram brtt, við frv. á þskj. 630.

Þær breytingar snerta aðallega íhlutun ríkisins, og vilja þeir, að fisksölusamlögin sjálf taki að sér framkvæmdir allar og sölu.

Í frv. og l. nr. 37 1931 er gert ráð fyrir þeim aðferðum báðum, að ríkið taki að sér rekstur skipanna og sölu fiskjarins, og að fisksölusamlögin geti gert það sjálf, þar sem þau eru orðin svo öflug, að þau telja slíkt mögulegt og hentugra. Meiri hl. n. þótti rétt að hafa báðar þessar leiðir opnar fyrst um sinn. Þar sem fyrirkomulagið hefir enn ekki verið reynt til hlítar, getur það vissulega komið sér vel, að ríkið annist um framkvæmdirnar, eins og var á síðastl. hausti. En ég skal geta þess, að á Austurlandi, þar sem nú er fengin nokkur reynsla um þetta, býst ég við, að Fisksölusambandið hverfi að því raði að taka allar þessar framkvæmdir í sínar hendur, en hinsvegar á Norð-Austur- og Norðurlandi get ég búizt við því, að til byrjunar a. m. k. þætti hentara, að framkvæmdir væru hjá skipaútgerð ríkisins, og einmitt þess vegna hefi ég lagt áherzlu á það, að lata báðar þessar leiðir opnar standa.

Mér þykir ástæða til þess að minnast á það, hvaða óhöpp urðu þess valdandi, að tilraunin á Austurlandi gaf ekki eins góðan arð og búizt var við. Ég hefi orðið þess var, að ýmsar tröllasögur hafa sagðar verið um hana og sumum hefir skilizt, að útkoma þeirrar tilraunar hafi orðið að öllu neikvæð, en það er misskilningur. Sala fiskjarins var, eins og ég þegar hefi sýnt fram á, góð, en þrátt fyrir það varð fjárhagslega niðurstaðan ekki sem bezt. Fyrst og fremst voru skipin leigð lengur en hagt var að nota þau, og 1/3 af leigutímanum varð sambandinu aðeins. byrðarauki, af því að vetur var kominn og ógæftir hömluðu. Í öðru lagi reyndust skipin of stór til þess að komast í fiskkví í Grímsby, og urðu að liggja annarsstaðar, en kostnaður af flutningi milli fisksölustaða og skipa varð um 22 þús. kr. Ennfremur var byrjað á heim árstíma, að ekki var hægt að safna ís, og varð að kaupa ísinn frá England fyrir um 16 þús. kr. Þessi óhöpp og fleiri verður að lita á eins og barnasjúkdóma, og þau urðu orsök í því, að útkoman varð ekki góð á endanum. Þá bættist það líka ofan á, að sambandið keypti dragnætur fyrir 50 þús. kr., sem áttu að koma í byrjun veiðitímans, en komu ekki fyrr en seint í október og urðu ekki að notum, en auðvitað varð að greiða kaupverðið, og festust þarna mikil verðmæti fyrir félagsmönnum. Umbúðir fiskjarins, hús og bryggjur kostuðu líka mikið fé í upphafi, kassarnir einir, sem að mestu eru ónotaðir ennþá, um 26 þús. kr. Þess vegna varð líka niðurstaða þessarar tilraunar ekki betri en svo, að þrátt fyrir góða sölu sat sambandið að lokum uppi með dálitla skuld. En bæði sjútvn. og aðrir, sem kunnugir eru þessu máli, eru sannfærðir um það, að með þeirri reynslu, sem nú er fengin, og haganlegri aðferðum, má vinna bátaútveginum ómetanlegt gagn með því að hlynna að útflutningi ísfiskjar.

Bæði á þessu þingi og því síðasta hefir verið mikið rætt um atvinnubætur og kreppuráðstafanir; alltaf er verið að gera einhverjar rástafanir til þess að komast út úr hinu villugjarna völundarhúsi kreppunnar. Sjálfur hefi ég enga trú á atvinnubótastyrkjum, eins og þeir hafa verið veittir, og held, að sú leið geti aldrei blessazt. Hitt þykir mér álitlegra, ef takast mætti, sem ég trúi, að hjálpa þeim, sem erfitt eiga uppdráttar í lífsbaráttunni, til að hjálpa sér sjálfir. Ég hygg, að það megi takast á mörgum stöðum með þessum raðstofunum Alþ. í sambandi við kæliflutning fiskjar á útlendan markað.

Ég skal ekki tefja tímann að óþörfu með því að ræða þetta mál meira, ef ekki gefst sérstakt tilefni til síðar. Ég vænti þess, að hv. dm., eða meiri hl. þeirra, geti orðið okkur flm. sammála um till. okkar í þessu efni og álíti þær þess verðar að njóta stuðnings þeirra, og að á þann hátt verði hægt að framhalda tilraununum á þessu sumri.

Um brtt. á þskj. 630 ætla ég ekki að ræða frekar en ég hefi gert, nema tilefni gefist til. Nefndin sem heild er því fylgjandi, að einhverjar ráðstafanir verði gerðar í þessu efni, og þessi lítilfjörlegi skoðanamunur nefndarmanna ætti ekki og mun ekki leiða til þess, að frv. strandi. en það mætti það sízt gera. Eflaust muna allir hv. dm., að í l, nr. 37 frá síðasta þingi eru fyrirmæli um það, að endurskoðun á þeim skuli fram fara á þessu þingi, og þess vegna er frv. fram komið.