06.05.1932
Neðri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2026 í B-deild Alþingistíðinda. (2272)

364. mál, útflutningur á nýjum fiski

Jón Auðunn Jónsson:

Hv. 1. þm. S.-M. taldi það mikinn skaða, hve seint hefði byrjað ísfiskveiðin á Austfjörðum síðastl. haust. (SvÓ: Ég talaði um, að undirbúningurinn hefði orðið of seint fyrir. Annars hygg ég, að óhætt sé að vara við því að byrja veiði þessa of snemma á sumrinu, því það verður að gá að því, að markaðurinn fyrir ísfisk verður ekki góður í Englandi fyrr en um miðjan september. Fyrri hluta sumarsins, í júní, júlí og fram um miðjan ágúst, er markaðurinn þar mjög lélegur.

Ef kassaútflutningur er stundaður með þeim hætti, sem gert var á Austfjörðum síðastl. haust, þar sem tekinn var á 5 til 6 stöðum kassafiskur, þar sem margskonar fisktegundum var ruglað saman og byrjað hafði verið á að veiða mörgum dögum áður en fiskurinn var tekinn, þá verð ég að telja hann mjög varhugaverðan. (SvÓ: Þetta kom þó ekki að slysi). Hv. þm. segir, að það hafi ekki komið að slysi. En það er óhætt að fullyrða það, að fiskur þaðan þótti ekki góður. (SvÓ: Ég kom ekki neitt að slíku!). Ég kom ekki neitt að slíku, segir hv. þm. En fiskinum var grautað saman í kossum og seldist því oft fyrir minna verð en ella hefði orðið.