09.05.1932
Neðri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2035 í B-deild Alþingistíðinda. (2296)

466. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Austurlandi

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Mér þykir vænt um, að hv. þm. ætlar að verða við tilmælum mínum um aðtaka brtt. sína aftur til 3. umr. Þar á móti skal ég heita honum því, að henni skal verða haldið til skila og hún athuguð af n. til 3. umr. Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um hana nú, þótt ég sé nokkuð annarar skoðunar en hv. flm. um ýms atriði.

Hv. flm. sagði, að brtt. sjútvn. yðru ekki til bóta. Við lítum nú öðruvísi á það mál, og mér finnst hv. flm. geta verið sæmilega ánægður með þessa afgreiðslu, þegar þess er gætt, að hann hefir á engan hátt gert það sennilegt, að fyrir lægi nokkurt áform eða umsókn frá erlendu félagi um að fa þetta leyfi. Hann hefir heldur ekki reynt að sýna fram á, að erlent fjármagn sækti sérstaklega á Seyðisfjörð. Við höfum lítið með velvilja á þetta mál, en höfum fært frv. í það form, að heimildin gæti náð til fleiri staða en Seyðisfjarðar, ef tiltækilegra þætti að reisa stöðina annarsstaðar. Hv. flm. getur eftir atvikum verið ánægður með þessa afgreiðslu.

Hvað það snertir, að þetta geti leitt til metings milli fjarðanna um að fá verksmiðjuna til sín, þá virðist mér það vera þýðingarlaus mótbára. Sá, sem vill hætta fé sínu í að reisa verksmiðju hér á landi, leggur það sjálfur niður fyrirsér út frá praktískum ástæðum, hvar heppilegast muni að bera niður um slíkt fyrirtæki. Metingur á milli fjarðanna fær engu um þokað í því efni, þó að upp kynni að koma. Og það getur eins komið fram, þó að um Seyðisfjörð einan væri að ræða í þessu sambandi, að þetta erlenda félag, sem kynni að vilja reisa þarna verksmiðju, setti það sem skilyrði gagnvart bæjarfélaginu, að fyrirtækið verði ekki drepið í sköttum. Þótt hv. flm. fengi frv. samþ. óbreytt, þannig, að útlendingum leyfðist aðeins að reisa og starfrækja slíka síldarbræðsluverksmiðju á Seyðisfirði, má ganga að því vísu, að það komi til athugunar milli bæjarfélagsins og hins væntanlega atvinnurekanda, hvers hann á að vænta um skattaálögur af hálfu bæjarins félagi sínu til handa. Slíkt kemur jafnt til greina hvort heldur sem um Seyðisfjörð eða aðra staði er að ræða. –Hinsvegar fannst n. það sanngjarnt, landsfjórðungsins vegna, að hafa þetta leyfi ekki bundið við neinn áakveðinn stað, svo að það erlenda félag, sem í þetta fyrirtæki kynni að vilja ráðast, gæti reist verksmiðjuna annarsstaðar, ef svo byði við að horfa. Hv. þm. Seyðf. hefir hér lýst kostum Seyðisfjarðar til þessara hluta með mörgum orðum, en aðrir telja hinsvegar, að Norðfjörður liggi bezt við í þessu efni, og verða kunnugir menn auðvitað að skera úr þessu, en hvorki við í sjútvn. né hv. þm. SeyðSf., og því taldi n. rétt að hafa þetta óbundið fyrir stj. og heimila henni að veita leyfið hvar sem er á Austfjörðum. Þar sem auk þess litlar vonir eru til þess, að slík heimild verði notuð, þó að veitt verði, er ekki ástæða til að vekja sérstaklega vonir hjá Seyðfirðingum í þessu efni, en betra að hafa heimildina almenna, og þar að auki má og ef til vill fremur vænta þess, aðahugamönnum kynni að takast að leysa málið í samráði og samvinnu við útlendinga, ef svo er frá þessu gengið. Á Norðfirði er þannig fiskimjölsverksmiðja, og kostar ekki eins mikið að gera hana svo úr garði, að hún geti unnið mjöl úr síldinni, eins og kosta mundi að reisa slíka verksmiðju af stofni annarsstaðar. Mundi ekki verða eins erfitt að leysa málið, ef Norðfjarðarkaupstaður t. d. gengi í það í félagi við eitthvert erlent félag, sem í slíkt vildi ráðast, að koma upp síldarvinnslu á Norðfirði, því að það var á margan hátt vel til um það að setja síldarvinnsluna í samband við fiskimjölsverksmiðjuna, sem þar er fyrir. Renna þess vegna margar og sterkar stoðir undir þessa brtt. n., að binda heimildina ekki við Seyðisfjörð eingöngu.

N. vill ekki að svo stöddu ganga inn á þá braut að breyta fiskveiðalöggjöfinni frá 1922 og hefir því fellt niður síðari hl. frvgr. í till. sínum. Fiskveiðalöggjöfin getur verið umdeilt efni, og skal ég ekkert um það segja nema þörf sá á að endurskoða hana, og mér er þó nær að halda, að svo sé, en ég vil, að slík. endurskoðun fari fram sem heildarendurskoðun, en ekki með einstökum lögum, sumpart viðvíkjandi saltfiski og sumpart viðvíkjandi síld, sem taka til einstakra lögsagnarumdæma, þannig, að löggjöfin leyfi á einum eða fleiri stöðum það, sem hún þó almennt bannar, því að vitanlega leiðir slíkt til þess, að einn kemur á eftir öðrum og heimtar sömu réttindin fyrir sig, og niðurstaðan verður svo sú, að fiskveiðalöggjöfin frá 1922 stendur með öllum sínum hömlum og þröskuldum fyrir viðskiptum útlendinga hér í þessum efnum, en öll með smugum og götum fyrir einstök lögsagnarumdæmi. Þó að hér sé að vísu um bjargráðaráðstafanir að ræða, verður þetta að vera í samræmi hvað við annað, svo að hinum einstöku lögsagnarumdæmum sé ekki gert mishátt undir höfði, því að það er er vitanlegt, að þessum ástæðum er víðar við að bera ef fullnægjandi þykja, en á Austurlandi einu. Ég þykist og vita, að hv. flm. hljóti að sjá það að athuguðu máli, að till. n. eru velviljaðar þessari hugmynd hans, ef rétt er á þær litið, og að n. hefir gengið eins langt í því að reyna að gera honum til geðs og hann frekast gat búizt við. Það verður að taka tillit til fleira en eins kjördæmis og hagsmuna þess eins um afgreiðslu slíks máls sem þessa. N. treysti sér ekki til að ganga lengra að því er það snertir, að erlend skip fái að leggja veiði sína hér á land, en fiskveiðalöggjöfin heimilar, eins og hún hefir verið skilin og framkvæmd, og getur hv. flm. ekki heldur ætlazt til meira af n. eins og sakir standa.