11.05.1932
Neðri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2046 í B-deild Alþingistíðinda. (2305)

466. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Austurlandi

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Hv. flm. hélt því fram, að það væri hróplegt ranglæti, ef Seyðfirðingum væri ekki veitt það leyfi, sem hér er farið fram á. Út frá þeim skoðunum hv. þm. get ég vel skilið ofurkapp hans og skrifa það á reikning þeirra.

Hann benti á það, að hugmyndin væri að veita mjög takmörkuðum fjölda skipa heimild til að leggja upp síld og að síldarbræðslan keypti bæði af erlendum og innlendum skipum, en um þetta stendur ekki einn stafur í frv. (HG: Það ákvæði getur bæjarstj. sett). Það getur vel verið, að bæjarstj. finni upp á því að setja ýms ákvæði um þetta leyfi, en fyrir því er engin trygging í frv. Það er nú ekki svo að skilja, að við gerum aðeins ráð fyrir því, að þessi undanþága mundi stuðla til þess, að kröfur um samskonar réttindi kæmu fram frá öðrum stöðum, heldur eru þær þegar komnar fram. Frá Siglufirði liggur fyrir umsókn um að fá undanþágu frá fiskveiðalögunum í 10 ár. Þetta er höfuðástæðan fyrir því, að erfitt er að veita slíkar undanþágur; það er svo erfitt að gera upp á milli þeirra, sem sækja um þær. Ég sé ekki, hvers vegna endilega á að daufheyrast við kröfum Siglfirðinga samhliða því, sem Seyðfirðingum væri veitt leyfi. Það er því ekki ranglæti, sem við byggjum á með því að vilja ekki leyfa undanþágu á einum stað fremur en öðrum, heldur réttlæti, að vilja lata alla búa við sömu aðstöðu hvað lagafyrirmæli snertir í þessu efni. Annars þarf hv. þm. ekki að undra það, þó bæði ég og aðrir taki þunglega till. frá Austurlandi sem þessari. Þær eru nú orðnar dálítið margar og stefna allar í þá sömu átt að vilja rjúfa skörð í þann varnargarð, sem fiskveiðalöggjöfin er fyrir sjávarútveginn. T. d. barst hingað fyrir skömmu símskeyti frá bæjarstj. á Seyðisfirði til atvmrn. um að fá leyfi til að mega taka fisk af útlendum skipum til verkunar og að Norðmönnum yrði veitt söltunarleyfi til 10 ára, líkt og sótt hefir verið um frá Siglufirði. Og sjálfur þm. kjördæmisins flytur ýms frv. hér í hv. d., er fara í svipaða átt. Nú er það svo, að stj. hefir í hendi sér samkv. gildandi löggjöf að rýmka fyrir norskum veiðiskipum rétt til hlunninda hér við land. (HG: Það er bara með sölu). Það má vera, að undanþáguheimild Norðmanna gildi raunar ekki nema um sölu, en hingað til hefir sú heimild þótt nægileg, og þar sem hér er ekki nema um 10 þús. tunnur að ræða, þá sé ég ekki annað en að hægt væri að fá því framgengt eftir gildandi heimild. Ég tel, að Alþingi ætti ekki að draga úr því, að stj. noti þessa heimild, ef það er rétt, að kaupstaðurinn komist ekki af án þeirrar hjálpar, sem í því felst að fá þessar 10 þús. tunnur þar á land. Og úr því ekki er um meira að ræða, þá get ég ekki seð, að það þurfi sérstaka lagasetningu til þess að fá þessa undanþágu, heldur geti stj. veitt leyfi samkv. þeirri heimild í samningum milli Íslands og Noregs, sem ég áðan benti á. Þó ég sé mótfallinn frv., sem eins og bent hefir verið á gengur í þá átt að rjúfa skarð í fiskveiðalöggjöfina, þá tek ég það fram, að ég mun ekki átelja stj., þó hún leyfi, að sú síld, sem rætt er um, verði hér lögð á land, og lati með því Seyðisfjörð njóta líkrar undanþágu og gilt hefir á Norðurlandi viðvíkjandi erlendum skipum.