13.05.1932
Efri deild: 74. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (2316)

466. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Austurlandi

Jón Baldvinsson:

Út af ummælum hv. 4. landsk. vil ég aðeins benda á það, að þetta frv. var flutt í Nd. af þm. Seyðf., og eru ástæðurnar fyrir því alkunnar, því að allar stundir síðan fiskveiðalöggjöfin var sett hefir verið hið mesta vandræðaástand á Austfjörðum, og því ekki að ástæðulausu, að menn setja þetta hvorttveggja í samband hvað við annað. Það mun hafa verið um víðtækari heimild að ræða í hinu upphaflega frv. að því er snertir undanþáguna frá fiskveiðalöggjöfinni, því að samkv. frv. eins og það er nú er aðeins farið fram á það, að stj. sé heimilað að leyfa útlendum mönnum að landsetja og láta verka síld á Seyðisfirði árið 1932, en í upphaflega frv. mun þessi heimild hafa verið miðuð við 10 ár. Að því er síldarbræðsluverksmiðjuna snertir gerir frv. ráð fyrir, að reisa megi hana hvar sem er á Austfjörðum, og er þetta breyt. frá því, sem var í upphaflega frv., sem mun hafa bundið þetta við Seyðisfjörð eingöngu.

Ástæðurnar fyrir þessu frv. eru fyrst og fremst þær, að ekki hefir tekizt að koma því fram, að ríkið reisi síldarbræðslu á Seyðisfirði, eins og nú þegar hefir verið gert á Siglufirði, en það er hinsvegar vitanlegt, að fjárhagsafkoma manna á Austfjörðum er ekki á þann veg, að þeir geti af eigin rammleik ráðizt í þetta fyrirtæki, og er því eini möguleikinn úr því sem komið er, að útlendir menn fáist til að leggja fram fé í þessu skyni, og sé ég ekki, hvernig Alþingi bæði getur synjað því að bæta úr bágindum manna á Austfjörðum með aðstoð ríkisins og eins að veita slíka heimild og hér er um að ræða, því að það mundi þýða það, að Austfirðingar væru algerlega látnir deyja drottni sínum, en slíkt virðist reyndar ekki vera fjarri skapi Alþingis, því að nú nýlega fékk till. um skipun n. til að athuga fjárhagsafkomu þeirra Austfirðinga þá afgreiðslu hér í þinginu, að litlar vonir er hægt að gera sér um neinn árangur í þessum efnum. Er það þó kunnugt öllum hv. þm., að Austfirðingafjórðungur á nú við mjög mikla fjárhagslega örðugleika að etja, og er þetta frv. aðeins spor í þá átt að leysa úr mestu vandræðunum, og jafnvel þótt hér sé um nokkra tilslökun á fiskveiðalöggjöfinni að ræða, sé ég ekki annað en að fólkið austanlands eigi kröfu til þess, að þetta mál gangi fram, þar sem það hefir ekki fengizt fram, að ríkissjóður legði fram fé til atvinnubóta þar eystra.