21.05.1932
Efri deild: 80. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (2321)

466. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Austurlandi

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Það stendur eins á með þetta frv. og það næsta á undan, að það er komið frá Nd. og var flutt þar af hv. þm. Seyðf. Sjútvn. hefir athugað málið rækilega, eins og nál. ber með sér, og komizt að þeirri niðurstöðu, að brýna nauðsyn beri til að reisa á Austurlandi síldarbræðslustöð hið bráðasta. Hefir síðastl. vetur ekki sízt gefið ástæðu til þessarar skoðunar, þar sem svo stendur á, að mikil síld hefir verið fyrir Austurlandi, Seyðisfjörður og aðrir firðir fullir af síld, sem ekki hefir verið hægt að notfæra sér. En hinsvegar ekki kostur fyrir hendi að notfæra sér síldina á hann hátt sem skyldi, þrátt fyrir það, þó að — t. d. eins og átt hefir sér stað allan síðastl. vetur og fram á þennan dag — um óvenjumikla síld hafi verið að ræða. Að vísu var nokkuð af síldinni saltað fyrri hluta vetrar og talsvert af henni selt, en þó er nokkuð af því, sem saltað var, óselt enn og óvíst, hvernig um það fer.

Hitt er einnig vitað, að vegna undirtekta Alþ. og getumöguleika þeirra manna, sem áhuga hafa á þessu máli, að síldarverksmiðja verður ekki reist á Austurlandi fyrir innlent fé eingöngu. því er full ástæða til að veita heimildina, ef með þeim hætti mætti leysa þetta mikla og stóra áhugamal Austfirðinga. Og sérstaklega af því m.a., að svo stendur á, að til er á Austfjörðum fóðurmjölsverksmiðja, og má þá í sambandi við hana koma á fót síldarverksmiðju fyrir mun minna fjárframlag en ef verksmiðjan væri reist að öllu leyti og Ein út af fyrir sig. Annars er engin ástæða að slá neinu föstu um þetta, en hinsvegar er ekki að neita, að hér er verið að benda á möguleika, sem ekki er ósennilegt, að notaðir yrðu á þann hatt, að útlendur maður reisti stöðina að nokkru leyti. Hann mundi sennilega ekki koma til að eiga nema helminginn, því að fóðurmjölsverksmiðjan yrði þó alltaf innlend eign.

Sjútvn. telur því ekki aðeins forsvaranlegt að veita þessa heimild, heldur lítur hún svo á, að hér sé tilraun gerð um það, að leyst verði það, sem um langa stund hefir verið eitthvert mesta áhugamál Austfirðinga. Og n. fær ekki séð, að samfara heimildinni sé nokkur hætta, enda er með henni tryggt, að ákvæði gildandi laga haldist að öðru leyti.

Hinsvegar hefir meiri hl. n. litið með nokkuð öðrum augum á þá heimild, sem felst í 2. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að nokkrum síldveiðiskipum verði veitt á yfirstandandi ári leyfi til þess að landsetja og verka nokkurn hluta afla síns á Seyðisfirði. Þetta horfir nokkuð öðruvísi við en menn gera sér kannske grein fyrir í fljótu bragði, því að ef byrjað verður að veita slíka undanþágu á einum stað, þá koma fleiri á eftir, enda er þegar komin fram brtt. við frv. um það, að heimild þessi nái einnig til Siglufjarðar. Og ef gengið verður inn á þessa braut, þá verður ekki hjá því komizt að veita slíka undanþágu víðar. Sjútvn. hefir því, an þess að taka beina afstöðu til fiskveiðalöggjafarinnar eða hvort rýmka beri ákvæði hennar, talið, að ekki væri rétt að hverfa að þessu ráði að svo vöxnu máli, enda eru allar líkur til, að hér sé ekki um jafnmikil bjargrað að ræða og flm. gera ráð fyrir eða láta í veðri vaka. Það er líka óvíst og jafnvel litlar líkur til, að héðan af verði fiskur landsettur á þessu ári til verkunar á Seyðisfirði, því að vertíð þeirra Norðmanna, sem stunda þorskveiðar við Ísland, er mi útrunnin. (JBald: En þetta er bundið við síldveiðiskip). Þó að ákvæðið taki til síldveiðiskipa, þá er ekki sennilegt, að þessi heimild verði mikið notuð af Norðmönnum, því að skip þeirra eru þannig útbúin, að þeir framkvæma söltunina um borð, og er ekki líklegt, að þeir mundu flytja á Seyðisfjörð salt og tunnur til þess að verka síldina þar. Ég óttast því, að af þessu leiddi ekki eins mikla hjálp fyrir íbúa viðkomandi staðar eins og flm. hafa bent a. Hinsvegar væri tilefni, ef þetta yrði samþ., að draga þá ályktun, að Alþingi hefði til muna horfið frá fiskveiðalöggjöfinni. Og þó að ég vilji ekki segja að svo vöxnu máli, hvað rétt sé að gera í því efni, þá tel ég varasamt að gefa tilefni til slíks nú. Ef Alþingisér ástæðu til að gefa eftir á fiskveiðalöggjöfinni og nota meira íslenzka landhelgi, þá verður að gera það alveg að yfirlögðu ráði og á hann hatt, að það sé ekki bundið við neina sérstaka erlenda þjóð né heldur séu veittar undanþágur neinum sérstökum héruðum landsins.

Annars sé ég ekki ástæðu til að þreyta hv. deild með löngum umr. um þetta mál, enda býst ég við, að hv. þdm. sé ljóst, hvað vakir fyrir meiri hl. sjútvn. gagnvart heimildinni í 2. gr. frv. Við viljum lata það fara eftir áliti hv. þdm., hvort telja megi það svo mikil hlunnindi, sem þessi staður verður aðnjótandi, að það vegi upp á móti þeirri hættu, sem getur verið samfara því að leggja inn á þessa braut, sem svo hvatvíslega er gert með 2. gr. frv.

Ég hefi áður tekið fram, að hvorki ég persónulega né meiri hl. sjútvn. vilji leggja dóm á, hvaða stefnu þingið eigi að taka um breyt. á fiskveiðalöggjöfinni, en hitt er ljóst, að á þennan hátt megum við ekki breyta henni. Við verðum að gera það að yfirlögðu ráði og í föstu formi, svo að ekki verði hægt að segja, að ívilnunin sé frekar bundin við eina viðskiptaþjóð en aðra, eða að eitt hérað landsins njóti meiri hlunninda í þessu skyni en önnur. Ég lit svo á, að verði undanþágan veitt Seyðisfjarðarkaupstað, þá sé ekki ástæð til að neita Siglufjarðarkaupstað um samskonar ívilnun, eins og brtt. á þskj. 717 fer fram á, og vil bæta við, að það mun reynast örðugt fyrir Alþingi að standa á móti eða sinna ekki þeim kröfum, sem kunna að berast víðar frá. Enda sé ég ekki ástæðu til, að tekin sé út úr ein höfn á Austurlandi, en öllum hinum fyrirmunað að verða slíkra hlunninda aðnjótandi. Og fari svo, að 2. gr. frv. verði samþ., og sennilega þá með brtt. hv. 2. Eyf., að heimildin nái einnig til Siglufjarðar, þá vil ég taka fram, að ég áskil mér fullan rétt að koma með brtt. við 3. umr. um, að heimildin nái til fleiri staða á Austurlandi.

ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið að sinni, en legg á vald hv. þdm., hvernig þeir taka því. Aðeins vil ég leggja áherzlu á, að 1. gr. frv. verði samþ., því að hún er allt annars eðlis og óskyld þeirri heimild, sem felst í 2. gr.