21.05.1932
Efri deild: 80. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2060 í B-deild Alþingistíðinda. (2326)

466. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Austurlandi

Jón Baldvinsson:

Ég held það megi segja hið sama um Seyðisfjörð og Siglufjörð, að þeir kaupstaðir eru að talsvert miklu leyti byggðir upp af síldveiðamönnum; þó að það sé talsvert lengra síðan síldveiði var rekin í nokkuð stórum stíl á Austfjörðum, þá stendur að því leyti eins á um báða þessa kaupstaði. Hinsvegar hefir Siglufjörður um nokkurt skeið verið aðalsíldarstöð landsins. Þess vegna eru miklar líkur til, að þar verði mikið starfað við þann atvinnuveg í sumar, ef það verður nokkursstaðar gert, en að líkindum alls ekkert á Seyðisfirði. Um langt araskeið hefir verið lítil síldveiði á Austfjörðum, en þegar síldargöngur eru fyrir Norð-Austurlandi, t. d. nálægt Langanesi, þá eru áhöld um vegalengdina þaðan til Siglufjarðar og Seyðisfjarðar, og geta síldveiðaskipin þá alveg eins farið með síldina til Seyðisfjarðar.

Það má auðvitað alltaf segja, að illt sé að veita einstökum lögsagnarumdæmum undanþágu frá fiskveiðalöggjöfinni, en það er beinlínis ranglæti gagnvart einstökum stöðum, eins og t. d. Austfjörðum, að slaka ekkert til við þá á fiskveiðalöggjöfinni. Og sé þeim ekki veitt nein undanþága frá þeim lögum, þá á að bæta þeim á annan hátt upp þetta ranglæti, sem fiskveiðalöggjöfin skapar þeim. Það er alls ekki rétt, að Reykjavík og aðrar verstöðvar á Suðurlandi, sem ekki hafa orðið fyrir barðinu á fiskveiðalöggjöfinni, heldur haft gott af henni, sitji á rétti annara verstöðva á landinu. Þess vegna verður löggjafarvaldið að jafna aðstöðuna í þessu efni á milli hinna ýmsu staða á landinu um atvinnumöguleika. þeir, sem hafa hagnazt á fiskveiðalöggjöfinni, verða að bæta hinum upp, sem hafa stórskaðazt á henni, eins og Austfirðir. Og ég sé ekki aðrar leiðir til þess en annað hvort að þeim verði bætt það með beinum fjárframlögum úr ríkissjóði, eða að löggjafarvaldið veiti þeim með undanþágu möguleika til þess að taka upp aftur viðskipti við útlenda menn, sem áður ráku atvinnu á Austfjörðum, og er lífsskilyrði fyrir bæina þar. Ég álít, að það sé miklu heppilegra að samþ. lög, sem heimila stj. að veita útlendum mönnum leyfi til síldveiða á Austfjörðum og til þess að leggja þar á land afla sinn, heldúr en að nota til þess heimild í lögum frá 1919 um rétt útlendra manna til af nota á fasteignum hér á landi. Það er tvímælalaust bezt, að löggjafarvaldið veiti þessa heimild í lagaformi, erinda þótt líka megi nota til þess þáltill. í víðtæku formi, en það er hætt við, að stj. vilji ekki veita leyfið nema þingið gefi heimild til þess, og frá því er fullkomlega gengið í 1. gr. þessa frv., og er því réttmætt að afgr. það, þó að 2. gr. verði felld. Frv. er nú búið að ganga í gegnum Nd. og er hér til 2. umr.; það er því svo langt komið, að engar líkur eru til þess, að þáltill. verði fyrr afgr. Ég held því, að aths. hv. 4. landsk. komi að engu gagni og leiði ekki til annars en þess að eyða málinu. Ég sé ekki, hvenær á að taka fiskveiðalöggjöfina til athugunar og breyt., ef ekki nú, þegar hallæri er fyrir höndum í landinu, hallæri, sem í sumum landshlutum stafar af fiskveiðalöggjöfinni, því að það má hv. 4. landsk. vita, að mestar líkur eru til þess, að atvinnuleysið og vandræðin í Austfirðingafjórðungi stafi af fiskveiðalöggjöfinni. Ég skal ekkert fullyrða um, að hve miklu leyti það bætir úr ástandinu, að útlendum manni sé leyft að reisa síldarverksmiðju á Austfjörðum, eða hvort líkur eru fyrir, að það verði gert, og í öðru lagi, hvort líklegt sé, að útlend síldveiðiskip leggi þar upp afla sinn, en hetta er þó alltaf tilraun til þess að veita atvinnulausu fólki lífsmöguleika, fólki, sem er orðið aðþrengt af erfiðleikum síðastl. 10–12 ár.