21.05.1932
Efri deild: 80. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (2328)

466. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Austurlandi

Pétur Magnússon:

Það er alveg rétt hjá hv. frsm. sjútvn., að ég vil ekki bregða fæti fyrir 1. gr. þessa frv. En út af orðum hv. 2. landsk. vil ég aðeins segja það, að þótt ég telji enga hættu stafa af því að setja lög um það efni, sem 1. gr. frv. fjallar um, þá þykir mér það óviðkunnanlegt, að þingið setji ný lagafyrirmæli um efni, sem áður er til í gildandi lögum, ef það er rétt athugað hjá mér. En um hitt get ég verið sammala hv. 2. landsk., að það er meira en vafasamt, hvort þingið hefir ekki beinlínis vanrækt að gera skyldu sína, þar sem það hefir ekki tekið til athugunar nauðsynina á því að breyta fiskveiðalöggjöfinni í einstökum atriðum, og einkum að því er snertir síldveiðar hér við land, en vitanlega er það ekki síður sök hv. 2. landsk. en annara alþm.