18.05.1932
Efri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2074 í B-deild Alþingistíðinda. (2367)

645. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég svaraði samskonar fyrirspurn við 1. umr. hér í hv. d. og gat þess þá, að ekkert hefðu verið athugaðir enn möguleikar fyrir því að „konvertera“ þessum lánum. Ég hélt því heldur ekki fram þá, að tími til þess væri hentugur nú. En hinu hélt ég fram, að þó tímar væru ekki heppilegir nú, þá gætu þeir breytzt, svo rétt væri að vera við því búinn, ef tækifæri byðist, og frá því sjónarmiði væri ekki óheppilegt að veita þessa heimild.

Brtt., sem fram kom í Nd., var felld af því, að það hafði komið fram áður, síðast þegar tekið var lán, að heppilegra var gagnvart lánveitanda, að í l. þeim, er heimiluðu lántökuna, væri skilyrðislaus ríkisábyrgð. Býst ég varla við neinni tortryggni um það að þetta lán verði notað til annars en þess, er grg. segir til, endurgreiðslu á lánum. Það má með nokkrum sanni segja, að afgangur kunni að verða af þessari lántöku, þegar eldri lánin eru greidd. En það stafar af því, að lánsheimildin er bundin við slétta tölu. Afgangurinn mundi þá renna í ríkissjóð, og er ekki hægt að segja, að það sé óþarfur hlutur á erfiðleikatímum. En þessar 12 millj. kr. eru þó ekki nefndar vegna þess að afgangur verði handa ríkissjóði, heldur vegna hins, að heldur þótti heppilegra að tiltaka lánsheimildina í ísl. kr., og að tiltaka þá heldur of háa en of lága tölu til að greiða upp hinar eldri skuldir. En verði þess óskað, þá er mér sama, þótt lántökuheimildin sé nefnd í pundum, og þá sem næst þeirri upphæð, sem þarf að taka til að greiða þessi lán.

Fleira held ég, að ræða hv. 1. landsk. hafi ekki gefið mér tilefni til að taka fram.