18.05.1932
Efri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (2368)

645. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Jón Þorláksson:

Ég finn enga ástæðu til þess að tortryggja hæstv. núv. fjmrh. um það, að hann noti þessa lántökuheimild til annars en þess, sem um er getið í grg. frv., sem er samin af honum sjálfum, þar sem hann er flm. frv. En á því hefir borið ekki svo litið hin síðari ár, að stj. hefir á ýmsum sviðum ekki talið sig bundna við yfirlýsingar fyrirrennara sinna. Og vegna þess fordæmis tel ég, að Alþ. eigi að gæta allrar varúðar, svo að það sé fyrirbyggt, að fjmrh., er síðar kynnu að koma, notuðu þessa lántökuheimild á annan hátt en núv. fjmrh. mundi gera. Ég segi þetta vegna þess, að ég er hræddur um, að dregizt geti nokkuð, að þessi lánsheimild verði notuð, þar sem ég tel, að tímar nú séu óheppilegir til slíkrar lántöku. En þetta allt má athuga til 3. umr. Ég vil geta þess, að ég er fús til að veita heimild til þess, að ný lán verði tekin til að greiða með eldri lán, ef hagkvæmari kjör fást. En mér er umhugað um, að svo verði frá þeirri lánsheimild gengið, að þau lán verði ekki notuð til annars.