18.05.1932
Efri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (2369)

645. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég á bágt með að hugsa mér þann fjmrh., sem nota mundi þetta lán til annars en þess, sem hér ræðir um, nema þá ef einhver litill afgangur yrði, þegar þau lán, sem nefnd eru í grg., væru greidd að fullu. Og þar sem nú hv. 1. landsk. treystir mér sæmilega til að framkvæma þetta eins og til er ætlazt, þá ætti hann vissulega að hafa þær vonir viðvíkjandi síðari tíma fjmrh., að þeir færu batnandi, en ekki versnandi. (Jón)?: Það getur nú brugðið til beggja vona!). Hann ætti á. m. k. að hafa þá von, að svo muni verða, þegar næstu fjmrh.-skipti fara fram. Annars hygg ég, að ekki muni vera þægilegt að komast framhjá Hambro's- eða Barclay's Bank, þegar farið er að .,konvertera“ þessum lánum. Og ég tel engan möguleika á öðru en að greiða þau upp, og er þá einungis um lítinn afgang að ræða, sem stj. gæti tekið til sinna þarfa, ef þessi heimild verður notuð. Þessum viðskiptabönkum yrði vitanlega tilkynnt, ef þessi heimild verður samþ., og álits þeirra leitað um það hvenær heppilegt myndi að hefjast handa um lántöku í þessu augnamiði. Ég hygg, að Hambro's Bank sé ekkert áhugamál um, að gamla lánið frá 1921 verði greitt upp nú, nema þá að hann hefði milligöngu um það og fengi ómakslaun. En hitt veit ég, að Barclay's Bank er um það hugað, að þeim 67 þús. pundum, sem við skuldum honum, verði sem fyrst breytt í fast lán, eða við fyrsta tækifæri. — Barclay's banki hefir sýnt lit á því að vilja útvega okkur fast lán. Það gerði hann við lántökuna 1930. Og ég geri ráð fyrir því, að leitað verði aðstoðar þessara banka og mikið farið að þeirra ráðum um það, hvenær hafizt verður handa um lánsútvegun. Mér er umhugað um það, að þessu skilyrði verði ekki skotið inn í frv. Mér þykir líklegt, ef það verður gert, að hinn útlendi lánveitandi muni þá senda fjmrh. heim og heimta skilorðslausa lánsheimild af þinginu, eins og fyrir hefir komið áður. Þar sem því sú hætta er til staðar, en hin hættan, sú, að lánsheimildin verði misnotuð, verður að teljast hverfandi lítil, þá vil ég alvarlega ráða frá því, að ákvæði um það, hvernig verja skuli láninu, verði sett inn í sjálf lögin, enda er hér um bil vitanlegt, að væntanlegum erlendum lánveitanda muni vera illa við að taka að sér, fyrir þá innlendu „opposition“ uppi á Íslandi, að sjá um það, að stj. fari rétt með þessa heimild. Lánveitandi mun fráleitt vilja taka að sér athugun á því.

Ég er fús til að eiga tal um þetta við hv. 1. landsk. og hv. fjhn. milli umr., ef æskilegt þykir. Og ég tjái mig fúsan til að breyta lánsupphæðinni úr krónum í pund. En ég geri ráð fyrir, að ég telji mér ekki fært að ganga inn á aðrar breyt. á frv.