18.05.1932
Efri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2077 í B-deild Alþingistíðinda. (2370)

645. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Jón Þorláksson:

Það hefir enginn hreyft því, og ég býst ekki við, að neinum hafi dottið það í hug að ætlast til þess, að erlendir lánveitendur tækju að sér hlutverk stjórnarandstæðinga um athugun á því, hvort stj. færi með fé ríkisins eins og fyrir hana er lagt. Ég kannast við þetta, sem hæstv. fjmrh. ber fram. Það hefir komið fyrir, að óskað hefir verið eftir nýrri lántökuheimild og því skotið fyrir, að heimild sú, sem fyrir hendi var, gerði ákvörðun um notkun lánsfjárins. Mér kom það á óvart þá, því mér var kunnugt um, að það var ekki tíðkanlegt að hafa sömu varúð gagnvart öðrum. Ég hafði þá nýlega haft fyrir mér lög um lántökuheimild frá Danmörku, þar sem farið var eins að og hér hafði verið gert. Í 1. gr. var skýlaus heimild til stj. til að taka lán, og í 2. gr. var kveðið á um það, til hvers féð ætti að nota.

Nú vil ég vekja athygli á því, að þó látið sé að vilja hæstv. fjmrh. og í þetta frv. séu ekki sett ákvæði um notkun fjárins, þá er sú leið opin að skipta þessu í tvenn lög, hafa lánsheimildina í öðrum, en ákvæði um notkun fjárins í hinum. Ég skil ekki í því, að nokkrum lánveitanda þætti það athugavert.

Mér finnst ástæða til að athuga þetta, því það eru allir sammála um, að því er virðist, að binda þetta við endurgreiðslu eldri lána. Hér er um mikla fjárhæð að ræða, en allt óvíst um það, hvenær lánið verður tekið og hvaða stj. situr þá að völdum.