25.04.1932
Efri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2089 í B-deild Alþingistíðinda. (2389)

463. mál, fátækralög

Jón Baldvinsson:

Mér þótti leitt, að hv. allshn. skyldi leggjast á móti frv. því til framfærslul., er ég bar hér fram snemma á þinginu. Vil ég spyrja hana, hvort hún geti ekki fallizt á, að málið komi fyrir hv. d., svo að hægt sé að skera úr um það, hvað þingið vill. Veit ég ekki, hver er form., en vil beina því til hv. n. að láta frv. koma fram, hverjar svo sem till. hennar eru. Skilst mér, að krafan um það, að landið verði eitt framfærsluhérað, eigi sér ríkt fylgi líka í öðrum flokkum en Alþýðuflokknum. Finnst mér þetta vera það minnsta, sem n. getur gert, eftir að hafa haft málið liggjandi í tvö þing. En ég verð að sætta mig við það, sem hún gerir. Þetta frv. hennar gerir litla breyt. á núverandi ástandi. Það, sem gerist, er það eitt, að ríkissjóður tekur aftur styrki þá, sem greiddir hafa verið sjúklingum, og jafnar því fé niður á þau sveitarfélög, sem harðast hafa orðið úti. Er það ekki mikið. Sýnist þessi breyt. svo lítilfjörleg sem verið getur. Þó er í grg. játað, að það væri kostur að hafa landið allt eitt framfærsluhérað, því að með því hyrfu úr sögunni kostnaðarsöm viðskipti milli sveitarfélaga. Vona ég, að hv. n. lofi okkur að sjá frv. mitt, svo að úrslit fáist um það.

Það sýnir þörfina á breyt. fátækralaganna, að 4 frv. liggja nú fyrir Alþ um breyt. á þeim, frv. n., frv. hv. 2. þm. Árn., frv. hv. 1. þm. M.-M. og svo mitt frv.