28.04.1932
Efri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (2399)

463. mál, fátækralög

Pétur Magnússon:

Ég þarf ekki mörgu að svara þeim hv. 2. þm. Árn. og hv. 3. landsk., því að það er aðeins ein röksemd, sem komið hefir fram gegn því að fella niður ákvæðið um, að endurgreiðsluskyldan hefjist fyrst þegar fátækraútgjöld eru komin 20% fram úr meðaltali. hún er sú, að sveitirnar safni útgjöldunum saman, dragi úr þeim annað árið, en auki þau hitt. j sjálfu sér er þetta engin röksemd gegn brtt. minni, því ef sveitarstjórnirnar hafa tilhneigingu til að gera þetta, mundu þær engu síður leggja inn á þá braut, þó ákvæði frv. heldust óbreytt. Annars held ég, að engin ástæða sé til þess að óttast þetta, því að endurskoðun hreppsreikninganna á að vera nægileg trygging fyrir því, að þetta verði ekki gert, a. m. k. ekki í stórum stíl.

Þá talaði hv. 3. landsk. um, að nefskattar mæltust illa fyrir. Þó væri í frv. þessu farið inn 5 þá braut að auka þá. Ég held nú, að tæplega sé hægt að kalla það nefskatt, þó að hér eigi að 1/3 hluta að miða við tölu fullorðins fólks í sveitarfélaginu, og það er svo í okkar fátæka landi, að við höfum tæplega önnur verðmæti betri en vinnuaflið, og það mun óhætt að gera ráð fyrir því sem almennri reglu, að þau sveitarfélög, sem marga íbúa hafa, séu betur fær um að bera mikinn fátækrastyrk heldur en þau, sem fámenn eru.

Þá vildi hv. þm. véfengja það, að eignaframtalið væri yfirleitt mjög hæpið. En hann hlýtur þó að vita það, hv. þm., sem er opinbert leyndarmál, að töluvert mikill hluti af peningaeign landsmanna kemur hvergi fram á skattskýrslum. Hv. þm. veit ennfremur, að mat á fasteignum er mjög mismunandi í hinum ýmsu sýslum, og ég hygg, þó ég þekki það ekki vel, að mat á búpeningi og dauðum munum sé einnig mjög svo mismunandi við á landinu. Þar er því alls ekki hægt að neita því, að skuldlaus eign sé mjög hæpinn mælikvarði í þessu efni og sízt réttlátari en fólksfjöldinn.

Ég skal ekki fara langt út í það að ræða um sveitfestistímann. Hv. 3. landsk. og hv. 2. þm. Árn. mölduðu í móinn um það, að ekkert verulegt kvæði að því, að hrepparnir reyndu að velta byrðunum af sér, og hv. 2. þm. Árn. sagðist ekki þekkja dæmi þess síðan sveitfestistíminn var styttur úr 10 árum niður í 4 ár, en sagði þó í sömu andránni, að hann myndi alveg hverfa, ef hann væri styttur úr 4 árum niður í 2 ár. Ég skil þetta alls ekki hjá hv. þm., því að ég fæ ekki séð, hvernig það á að minnka, sem aldrei hefir verið til eða átt sér stað. Annars skal ég játa, að nú hin síðari ár þekki ég ekki eins vel til um þessi mál til sveita eins og ég gerði áður. En meðan ég var í sveit, þá heyrði ég talað um mörg brögð, sem hrepparnir notuðu til þess að hrinda af sér sveitarómögunum. Það var þó meðan sveitfestistíminn var lengri en hann er nú, en eftir því, sem hann er gerður styttri, því auðveldara er fyrir sveitarfélögin að beita hinum og þessum brögðum til þess að velta ómögunum af sér. Því verður ekki móti mælt, að það er hægara að láta líta svo út í eitt ár, að þurfalingurinn þurfi ekki að njóta fátækrastyrks heldur en 7–8 ár. Ég get því alls ekki tekið trúanlegar yfirlýsingar hv. þm. um það, að þessi tilhneiging hreppsnefndanna, að velta af sér þurfalingunum, sé alveg horfin, og því síður að hún minnki með því að stytta sveitfestistímann úr því, sem hann er nú.