05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

1. mál, fjárlög 1933

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Seyðf. fyrjr velvild hans til Sjálfstæðisflokksins, er hann sýndi með því að líkja honum við hinn góða bróður Abel. Honum hefir líklega ekki verið þetta ljóst fyrr en nú nýlega, úr því að hann og flokksmenn hans hafa undanfarið lagt lag sitt við hinn bróðurinn. Vona ég, að honum skiljist það æ betur og betur, að Sjálfstæðisflokkurinn er hinn góði bróðir á okkar þjóðarheimili.

Hæstv. forsrh. tók ágæta líkingu af kaupfél., sem er illa og ógætilega stjórnað. Það festir eigur sínar á góðu arunum í fasteignum o. s. frv. Svo þegar kreppan kemur, þá er allt fast. Mér skildist hann vilja líkja stj. ríkisins undanfarið við slíkt félag, og er ég honum alveg sammála um það. Hann gat þess, að kaupfél. gerði vel við kaupfélagsstjórann, og á hann þar sennilega við sjálfan sig.

Hann sagði, hæstv. ráðh., að vér sjálfstæðismenn hefðum neytt upp á sig og flokksmenn sína ýmsu, svo sem varðskipum. Hafi hann tekið nauðugur við Ægi, þá mun embættisbróðir hans, dómsmálaráðh., ekki hafa verið jafnófús til þess, ef dæma má eftir því, hvernig hann hefir notað þessa gjöf frá sjálfstæðismönnum. Annars ætla ég nú aðallega að víkja máli mínu að hæstv. fjmrh. Hann hefir bæði nú og fyrr borið fram þá vörn eina um fjármálaástandið í landinu, að hér sé um heimskreppu að ræða, sem enginn gæti neitt við ráðið. Hann hefir m. a. sagt, að svona hljóti það ávallt að vera, þegar kreppa steðjar að.

Ég er hæstv. fjmrh. sammála um það, að kreppan er upp runnin í öðrum löndum. Hún heldur nú mörgum þjóðum heimsins í heljargreipum, og það er því ekki hægt að ætlast til, að við getum einir setið alveg hjá. En jafnvíst verð ég að telja það, að kreppan hjá okkur á meginrætur sínar hér í stjórnarráðinu. Og ég er ekki í vafa, eftir talstvert ýtarlega athugun, að meginþunginn, sem þjóðin finnur nú hvíla á sér, er ekkert annað en syndapoki hennar sjálfrar, sem hún lagði á sig, þegar hún skipti um stjórn og forustu í kosningunum 1927.

Ég ætla nú ekki að rekja slóð kreppunnar úti í heiminum frá verðbréfahruninu í New York síðast í okt. 1929, um bankahrunin í Þýzkalandi, verðfall afurðanna og önnur kreppufyrirbrigði. En einkennilegt er að athuga það, að frá því að Englandsbanki gefur fyrsta viðvörunarmerkið 26. sept. 1929 líða h. u. b. nákvæmlega tvö ár, þar til er hann sjálfur verður að láta í minni pokann og gefast upp á gullinnlausninni 21. sept. 1931. Fall enska pundsins er nokkurskonar yfirlýsing um það, að nú sé kreppan komin í algleyming.

Allt þetta sýnir okkur þann alþjóðablæ, sem er yfir kreppum nútímans, eins og yfirleitt yfir öllum viðskiptum heimsins í blíðu og stríðu. En þessi ótvíræða viðurkenning má ekki leiða athyglina frá hinu, að hver þjóð er enn nægilega einangruð til þess að valda mestu um allan hag sinn. Þegar Englandsbanki gefst upp við það að halda uppi pundinu, þá er það mest að kenna fjármálastjórn Englendinga sjálfra.

Kreppan skellur á öllum, en afleiðingar hennar fara að mestu eftir viðbúnaðinum heima fyrir, alveg eins og harði veturinn gengur jafnt yfir alla. Hvert land á mikinn hátt í sínum eigin kreppum. En þó hygg ég, að Ísland hafi þá sérstöðu, að það ræður meira við þær en flest önnur ríki. Það stafar bæði af því, að hér er allt smátt og fjárhagslega einfallt, og af því, að við erum talsvert utan við örasta strauminn. Við þurfum ekki að bregða við eins skjótt og aðrir. Viðskipti okkar eru ekki örari en það, að venjulega fæst umhugsunartími. og það er ekki lítils virði. Í tvö ár voru skýin að dragast saman fyrir það óveður, sem nú er skollið á. Fyrsta viðvörunin kom seint á árinu 1929. Hvar var hið vakandi auga stjórnarinnar? Þetta er það, sem næst liggur fyrir að athuga.

Á Alþingi 1930 var enginn kreppubragur yfir stjórnarliðinu. Mesti viðburður þess var sú stórfurðulega pólitíska hefnd, ráðgerð og undirbúin um mörg ár, sem átrúnaðargoð stjórnarflokksins var að koma fram á Íslandsbanka. Ég ætla ekki að fara að þreyta menn á því að segja þá raunalegu sögu hér. En það var sannarlega að leika sér með eldinn á hættulegasta stað, þegar mesta fjármálaafrek þingsins var það að loka banka, sem var jafnfléttaður inn í atvinnulíf okkar eins og Íslandsbanki var. Það var flokksbundin, sem þjónað var.

Svo leið ár og aftur kom Alþingi saman 1931. Allt árið 1930, með öllu því, sem þá gerðist í heiminum, og allri fjársóun stjórnarinnar, var liðið. Allar loftvogir voru fallnar niður á lágmark, nema pólitíska loftvogin hjá stj. Stj. virtist fáu skeyta nema því, að kosningar voru framundan, og hún faldi allt nema ógengdina. Um hana gaf hún út bók til þess að teygja framan í kjósendur.

En á þinginu var vel látið af öllu. Og svo var það rofið eins og menn muna. — Kjósendurnir litu á stjórnarloftvogina og gáfu henni bezta vitnisburð.

Og svo kom þingið í sumar. Þá var veðrið í raun og veru skollið á. En ennþá var vel látið af öllu. Þegar spurzt var fyrir um fjárhaginn, til þess að haga sér eftir því, þá var það svar gefið, að tekjur fyrri helming ársins væru þær sömu og næsta ár á undan. Og ekkert var gert til þess að draga úr. Það hefir sjálfsagt verið skakkt af sjálfstæðismönnum að trúa þessum opinberu skýrslum, en áhrif hefði það engin haft, þótt þeir hefðu viljað hefja eitthvað viðvörunarop. Tilraun var þó gerð af þeirra hálfu til að taka fyrir stærsta fjáreyðslustrauminn með því að banna stj. að úthluta millj. króna úr ríkissjóði auk þess, sem Alþingi veitti. En það var fellt. Meiri hl. að einum manni undanteknum, vildi láta stj. hafa heimild til þess að halda áfram.

Af þessu stutta yfirliti má sjá, að það var svo fjarri því sem mest mátti vera, að stj. virtist hafa hugmyd um, að nokkuð alvarlegt væri í aðsigi. Og það voru ekki orðin tóm, er sýndu þetta, heldur engu að síður athafnirnar. Það kemur fram í fjáreyslu hennar, sem fer sífellt vaxandi.

Ég vil nú næst líta á það, hvort nokkuð var, sem bent gæti á það hér innanlands, að erfiðir tímar væru í aðsigi. Með því að athuga málin erlendis frá árslokum 1929, var útlitið ljótt, og frá miðju ári 1930 fór það að verða ljóst, hvert stefndi. En hvað sögðu okkar eigin loftvogir? Ég vil líta hér á tvær þeirra.

Fyrst getum við þá litið á verzlunina. — Árið 1928 er mjög hagstætt. Mikils er aflað og verzlunin er hagstæð. Útflutningur nemur þá um 80 millj. kr. og 15,6 millj. meiru en innflutningur, og hefir það gefið vafalaust einar 10 millj. umfram. Þetta ár borgar stj. um 141/2 millj. úr ríkissjóði. Næsta ár, 1929, er einnig hagstætt. Mikils er aflað og verðlag er gott. Þó er útflutningur þá töluvert minni að verðmæti. En það er annað fyrirbrigði, sem nú ber á, og það er geysilegur innflutningur, svo að árið kemur út með nærri því 3 millj. kr. halla á verzlunarskýrslum, og má ugglaust telja raunverulegan halla þetta ár a. m. k. 8 millj. Þegar svona er komið, má vara sig, því að nú er hætt við ógengdinni. Fn stj. hækkar útborganir sínar þetta ár um 4 millj., upp í 18,4 millj. eða 7,5 millj. umfram fjárlög.

Svo kemur árið 1930. Árið er enn afarmikið aflaár og verð er gott framan af. En svo kemur verðfallið. Kjötið heldur sér lengst eða fram að árslokum. Ullin fer í lægsta verð síðan á aldamótum. Gærur fara niður í einn þriðja fyrra verðs. Fiskur hrapar úr 120 kr. skpd. í 75 kr. í árslokin og Labradorfiskur úr 93 kr. í 56 kr. Ísfiskur verður líka miklu lægri. Meðalfarmur verður £922 eða £200 lægri en næsta ár á undan, sem þó þótti lagt. — Þó að þetta væri mesta aflaár, sem komið hefir (441000 skpd.) varð útflutningurinn ekki nema 61,1 millj. eftir því, sem næst verður komizt. Fiskbirgðir eru margfalt meiri um áramótin, og standa þar eins og ógnun fyrir næsta ár. Innflutningur er 6 millj. hærri. Halli sjálfsagt einar 11–12 millj. Þetta ár er því sérstaklega háskalegt. Allt er í háspennu, en grundvellinum kippt undan, og þátt í þessari ógengd tók stj. svo ríflegan, að hún borgaði úr ríkissjóði nærri 26 millj. kr., eða miklu meira en tvöfalda fjárlagaupphæðina, þ. e. 13,8 millj. umfram fjárlög.

Þá vil ég næst líta á aðra loftvog, en það er greiðslujöfnuður Landsbankans út á við, eða réttara sagt greiðslujöfnuður landsmanna eins og hann speglast í greiðslujöfnuði Landsbankans. — Landsbankinn á inni hjá erlendum bönkum: Árið 1929 má telja lán 2,5+0,9 eða 3,4 millj. kr.; 1930 koma lán 15,3=?,5 millj. (endurgr.) eða 12,8 millj. kr.: 1931 má telja 1,5+2 eða 3,5 millj. kr. Alls kr. 19,7 millj. — Sagan, sem þessar tölur segja, er ærið eftirtektarverð. Frá ársbyrjun 1929 hefst jafn og hraðvaxandi halli á búskapnum, frá inneign upp á 11,7 millj. niður í skuld upp á 6 millj., eða nærri 18 millj. kr. munur á þessum miklu framfaraárum ! — En þó er sagan ekki nema hálfsögð með þessu, því að þessar tölur einar segja ekki nema hálfan sannleikann. Töluvert af þeim gjaldeyri, sem Landsbankinn hefir fengið inn erlendis, er alls ekki raunverulega tekjur landsmanna, heldur lánsfé, sem fengið hefir verið til landsins. Þetta get ég ekki gert upp til fullnustu, en benda má á þau lán, sem tekin hafa verið.

Þessum greiðslujöfnuði hrakar sem sé um eitthvað nálægt 37 millj. 1929 til ársloka 1931, jafnhliða því að stj. hækkar stöðugt útborganir.

Og á árinu, sem stj. borgar úr ríkissjóði 26 millj. kr., er hallinn á greiðslujöfnuðinum við útlönd yfir 20 millj. óhagstæður greiðslujöfnuður banka ætti æfinlega að vera hverri stj. viðvörun, og það er viðvörun, sem kemur þegar í stað. Á fyrsta mán. ársins 1930 var orðið augljóst, að halli hafði orðið á búskapnum 1929. En stj. sá ekki, eða vildi ekki sjá.

Það þyrfti í rauninni ekki að segja meira um það, sem hér hefir verið nefnt. til þess að allir geti séð, að fjárkreppan, sem að okkur sverfur nú, er að mjög miklu leyti orsökuð af illri fjármálastjórn þess opinbera. En ég vil nú samt leitast við að draga þetta fram dálítið meira.

Meginorsök hverrar fjárkreppu er framferði mannanna sjálfra. Hinn mikli og voldugi drifkraftur, sem keyrir menn áfram til framkvæmda, rekur mann í góðærinu fram úr því, sem til heilla horfir. Framleiðsla og allskonar rekstur eykst stöðugt, og um stund virðist allt vera komið á stöðuga leið upp á við. Kaupgjald hækkar, vörur seljast, fé liggur laust fyrir. En svo kemur hik á allt í einu. En þjóðfélögin þurfa ekki að standa uppi varnarlaus gegn þessari hættu. Það er hægt að vega talsvert móti því. Hvert þjóðfél. á í fórum sínum þung lóð, sem það getur lagt á vogarskálina á móti. Og þar kemur fyrst og fremst hið opinbera til greina. Það opinbera er nú farið að stjórna og hafa með höndum svo mikinn hluta af öllu fé þjóðarinnar, að það getur haft stórkostleg áhrif á alla fjármálastarfsemi hennar og unnið svo á móti eðlilegum öldugangi viðskiptalífsins, að hvorki bylgjutopparnir né öldudalirnir þurfi að fara mjög langt úr jafnvægisstöðunni. Á góðu tímunum, þegar allur vinnukraftur og allt fé er notað af einstaklingunum, á það opinbera ekki að koma fram sem keppinautur. Þá á það að fara að eins og Jósep í Egyptalandi, að safna í kornhlöður, því að þar eiga að ráða búskapnum svo vitrir menn, að þeir þekki þetta algilda lögmál, að magrar kýr koma á eftir þeim feitu, erfið ár eftir ógengd góðu áranna. Með því að draga sig þá í hlé með sína miklu möguleika, vinnur ríkið gegn óheilbrigðum ofvexti í öllu. Það tekur nauðsynlegt fé til varasjóða, til afborgana skulda og safnar sér því bæði fé og lánstrausti. Svo þegar syrtir að, menn missa bæði kjark og möguleika, þá opnar það sína sjóði og leitast við að draga úr vandræðunum. ha bæði á það fé til framkvæmda og þolir þó, að gjöld greiðist illa og nokkur halli verði á búskapnum. Þetta er stefnan, sem fylgt var á árunum 1924–27, þegar kreppan kom. 1926–27 voru skattar lækkaðir, en framkvæmdum haldið áfram. Það varð halli á ríkisbúskapnum, 200000 kr. annað árið og 11/2% millj. hitt árið. En þetta var algerlega skaðlaust, af því að ríkissj. var auðugur. Samansparað fé fleytti ríkinu yfir kreppuna og hennar gætti miklu minna vegna þeirra aðgerða.

En hvað segir nú saga undanfarinna ára okkur? Hún sýnir okknr með órækum tölum, að stj. hefir breytt gagnstætt þessu. Og stj. hefir sjálf gefið út bók á ríkiskostnað, sem færir öllum landslýð heim sanninn um þetta.

Skrá sú, sem ég birti áðan um útgjöld undanfarinna ára, sýnir þetta. Hún sýnir, hvernig stj. fylgir með og m. a. s. gengur á undan í því, sem hverja kreppu orsakar: Ógengdinni. Og hún kórónar það með því að borga úr ríkissjóði nærri 26 millj. kr. á sjálfu hættuárinu 1930.

18 millj. 1929 og 26 millj. 1930 eða 44 millj. kr. á tveim árum er ekki smáræði í okkar litla þjóðfél. Þetta geysilega peningaflóð kemur svo fram í gífurlegri samkeppni um allan vinnukraft og þar af leiðandi uppsprengdu kaupgjaldi og stórkostlega auknum innflutningi. En innflutningur er aukinn af völdum stj. bæði vegna þess, að stórkostlega þarf að víða að af ýmsu, en þó einkum vegna þess, hve kaupgetan er aukin með þessu. Peningaflóðið örvar stórum öll viðskipti, en ör viðskipti miða að hækkandi verðlagi.

Ég held nú varla, að um þetta geti verið ágreiningur. Lóðinu, sem leggja átti í vogarskálina á móti, var slengt í vogarskálina með, og því hefir allt farið um hvert bak eins og raun er á orðin. Hæstv. fjmrh. ætti ekki að vera að afsaka þetta, því að það hlýtur að vera gert á móti betri vitund. Og hann má ekki láta sér um munn fara aðra eins ósk og mér heyrðist hann bera fram síðast í gærkvöldi, að hann óskaði, að ekki yrði langt þangað til að stjórn hér á landi yrði atyrt fyrir of miklar framkvæmdir í góðæri. Ég tek undir fyrri part þessarar óskar, að góðærið komi bráðlega, en ekki undir síðari part hennar, að þá sitji hér stjórn, sem misnoti góðærið.

Þá vil ég benda á eitt mikilsvert atriði í þessu máli, og það er ráð, að stj. varð til þess að fresta fjárkreppunni um eitt ár hér í landi og bæta þannig óhöppum heils árs ofan á það, sem fyrir var. — Þetta gerði hún með lántökunum miklu 1930. Ef þá hefði ekki verið slengt inn um 13 millj. kr. erlendis, hefði kreppan komið ári fyrr. Sú yfirfærslustöðvun, er kom um síðustu aramot, hefði þá komið um næstu áramót á undan. Fyrirtæki þau, er sízt hefðu átt að halda áfram að auka tap sitt, hefðu stöðvazt. Úr verzlun og kaupgetu hefði dregið. Verzlunarjöfnuðurinn hefði lagfærzt ári fyrr. Markaðurinn hefði verið rýmri og verð skárra.

Það, að árið 1931 er látið vaða áfram á falskri kaupgetu, hefir átt meiri ratt í vandræðunum en við getum að svo komnu gert upp.

En, munu einhverjir spyrja, var þá hægt að komast af án þess að taka lán 1930? Voru ekki allir sammála um þær ráðstafanir, sem þetta fé fór til?

Það getur vel verið, að seinni part ársins 1930 hafi ekki verið annað fyrir hendi en að taka þessi stórlán. En auðvitað stafaði það af óhófsfjáreyðslu undanfarandi ára. Þegar 3 ár veita inn í ríkissjóð 15 millj. kr. umfram áætlun, eins og árin 1928–30 gerðu, nær það vitanlega ekki nokkurri átt, að stj. eigi að þurfa að taka lán til allra óvæntra hluta. Og það þýðir ekki að vitna í lánsheimildir þingsins og afsaka stj. með þeim, því auðvitað eru þær miðaðar við venjulegar tekjur, en ekki 5 millj. kr. á ári umfram.

Ef stj. því hefir verið orðin neydd til þess á síðara parti ársins 1930 að taka lán, þá er þð ekkert annað en staðfesting þess gamla beizka sannleiksorðs, að ein synd býður annari heim. Þessar miklu umframtekjur hefðu átt að nægja til alls, sem kallað var eftir.

Hinni spurningunni, hvort ekki hafi allir verið sammála um það, sem féð fór til, get ég ekki svarað hér vegna tímaskorts. En úr því að en bar hana upp, get ég þó sagt alveg afdraáttarlaust, að þessu fer mjög fjarri. því að bæði voru andstæðingar stj. yfirleitt ósammála ýmsum sampykktum þingsins, svo sem t. d. stofnun síldareinkasölunnar o. fl., og svo verður sérstaklega að hafa það í huga, að langmestur hluti eyðslunnar — sá hluti hennar, sem steypt hefir öllu um þvert bak — er algerlega án samþykktar Alþingis. Þetta sannast hezt af skýrslum stj. í bókinni frægu. Þar er — og að því er virðist með talsverðu stolti — sagt frá því, hve ábyrgðarlaust stj. eyddi fé umfram heimildir fjárlaganna. Og sjálf er bókin eitt dæmið: tugir þúsunda settir í prentun þessháttar rita, sem engin heimild var til.

Það er þá komið svo sem nú skal greina:

1. Tekjur góðu áranna eru eyddar og ríkissjóðurinn því tómur.

2. Lánsfé hefir verið veitt til manna og þeir laðaðir út í framkvæmdir, sem nú gefa tap og annað ekki, og þurfa þeir nú greiðslufrest.

3. Opinberar framkvæmdir voru afarmiklar, og nú stöðvast allt. Allur þessi fjöldi manna stendur slyppur eftir, auk allra þeirra, sem annarsstaðar missa atvinnu. Það hefði sennilega verið fullt svo heppilegt að taka nú til þessara framkvæmda, byggja nú skólahús og Arnarhvál, leggja vegi og byggja brýr og veita mönnum atvinnu, þegar þeir eiga sér fáa úrkosti.

4. Ríkið stendur nú uppi með afskapleg þyngsli, því að flestar framkvæmdirnar eru þess eðlis, að það kostar ekki aðeins peninga að eignast þær, heldur kostar líka peninga að eiga þær.

5. Skuldirnar hvíla eins og mara á þjóðinni. Yfir 40 millj. eru það nú, sem svara verður af vöxtum um hendur ríkisstj.

6. Lánstraust er náttúrlega ekki um að ræða.

Með þessu þykist ég þá hafa sýnt, að afleiðingar kreppunnar eru að mjög miklu leyti orsakaðar af óviturlegri fjármálastjórn þess opinbera.