03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2107 í B-deild Alþingistíðinda. (2406)

463. mál, fátækralög

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég hefi borið fram brtt. á þskj. 610 við 1. gr. þessa frv., sem bætt var inn í frv. Hér í þd. við 2. umr. Það var bent á það við þá umr. af hv. frsm. allshn., að það mundi ekki reynast heppilegt fyrir gengi frv. í þinginu, að þessari gr. væri bætt inn í það; en annars var ekki líklegt, að frv. mundi valda ágreiningi áður en þessari 1. gr. var skotið inn. Ég hygg, að þetta hafi verið réttilega mælt hjá hv. þm., og ég hefi hlerað úr hv. Nd., að líkur væru til, að þessi spádómur hv. 4. landsk. mundi rætast. þessi 1. gr. frv. fer fram á, að haldið verði enn uppi þeirri hreppapólitík og reipdrætti, sem löngum hefir loðað við þetta mál, þó að ekki hafi áður verið eins langt gengið og í þessari gr., sem flutt var hér snemma á þessu þingi sem sérstakt frv. Enginn vafi er á því, að ákvæði þessarar gr. mæta mikilli mótspyrnu. Með henni er opnuð leið til þess, að sveitarfélög geti sent þurfalinga sína í aðrar sveitir og haldið þeim þar uppi í 2 ár og þannig losnað við að framfæra þá lengur. Samkv. þessari gr. er eigi aðeins styttur sveitfestistíminn úr 4 árum niður í 2 ár, heldur er jafnframt gerð sú breyt. frá því, sem nú er, að maður getur unnið sér framfærslusveit, ef hann hefir ekki þegið sveitarstyrk þessi 2 ár, sem hann dvelur í sveitinni. En samkv. gildandi lögum má hann ekki hafa þegið sveitarstyrk síðustu 10 árin, ef hann á að geta unnið sér sveitfesti. Úr því að haldið er í það á annað borð, að menn eigi að vinna sér framfærslurétt eða sveitfesti, virðist eðlilegast, að þeir tilheyri þeirri sveit, þar sem þeir verða fyrst styrkþegar. Þó að maður hætti að þiggja af sveit á tímabili og flytjist svo í annað umdæmi, þá er hann venjulega orðinn ósjálfbjarga, þegar hann byrjar að þiggja fátækrastyrk, og þá er eðlilegast, að hann tilheyri til fulls þeirri sveit, þar sem hann fyrst vann sér framfærslurétt. En í þessu frv. er algerlega horfið frá þeirri hugsun og búið þannig um, að sveitarfélög geti losnað við þurfalinga sína með því að senda þá til 2 ára dvalar í annari sveit og halda þeim þar við. Þetta er aflögun, en ekki lagfæring frá því, sem nú gildir. Ég mæli eindregið á móti þessu og hefi þess vegna flutt brtt. á þskj. 610, að í stað orðanna „2 árum“ í niðurlagi 1. gr. komi: 10 árum, — eins og er í núgildandi lögum.

Annars verð ég að segja það, að þó að í öðrum greinum þessa frv. séu lítilsháttar umbætur, þá tel ég, að það skipti svo litlu máli, hvort þær ganga fram eða ekki, að við 2. umr. greiddi ég atkv. á móti frv., af því að þessi 1. gr. var samþ. og sett inn í það.

Ég skal taka það fram, að ég gæti vel sætt mig við, að tímatakmarkið væri tiltekið eitthvað innan við 10 ár, þó að ég hafi ekki séð ástæðu til að bera sjálfur fram brtt. í þá átt.