03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2108 í B-deild Alþingistíðinda. (2407)

463. mál, fátækralög

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Þegar þetta mál var hér til 2. umr., var ég bundinn við umr. í Nd. um ábyrgðarheimildir fyrir bankana. En við atkvgr. var fellt burt ákvæði í 3. gr. í till. allshn., um að ekki yrði greiddur styrkur úr ríkissjóði til hreppsfélags fyrr en fátækragjöld þess væru komin meira en 20% fram úr meðaltali fátækraútgjalda á öllu landinu. Nú var frv. þannig undirbúið, að á móti þeim kostnaðarauka, sem ríkissjóður legði til sveitarfélaga til fátækraútgjalda, átti að koma það, að ríkissjóður hætti að greiða sveitarfélögum sjúkrastyrki samkv. 66. gr. fátækralaganna fyrir þurfalinga, sem fara eftir læknisráði á sjúkrahús. Þannig átti ríkissjóður að fá fátækrastyrkinn til sveitarfélaga endurgreiddan. Þetta var samstætt á þann hátt, að þó frv. hefði verið samþ. óbreytt, þá var ekki gengið á rétt sveitanna, en útgjöld ríkissjóðs hefðu orðið nokkru hærri en ella, það er ekki gott að segja, hve mikið. En stj. sá ekki fært að bera fram tillögur á þessu sviði, sem bökuðu ríkissjóði verulega aukin útgjöld.

Ef greiddir væru úr ríkissjóoði 2/3 hlutar af þeim fátækraútgjöldum, sem fara meira en 20% fram úr meðaltali fátækraútgjalda sveitarfélaga á öllu landinu, miðað að 1/3 hluta við mannfjölda, að 1/3 hluta við skattskyldar tekjur, að 1/6 við skuldlausar eignir og að 1/6 við fasteignamat, þá hefðu komið í hlut ríkissjóðs 90 þús. kr. En ef greitt er úr ríkissjóði til sveitarfélaga 2/3 hlutar af þeim fátækraútgjöldum þeirra, sem fara fram úr meðaltali fátækraútgjalda á öllu landinu, eins og nú er gert ráð fyrir í frv. samkv. breyt. á því við 2. umr., þá verður hluti ríkissjóðs til kaupstaðanna 54 þús. kr. hærri en eftir upphaflega frv., og þeir hreppar, sem hafa fátækraútgjöld yfir meðaltal þeirra á öllu landinu og allt að 20% yfir því, mundu hljóta um 10 þús. kr. úr ríkissjóði, svo að viðbótarútgjöld ríkissjóðs eftir þeirri breyt., sem gerð var á frv., gæti aldrei orðið minni en 64 þús. kr. Og ef þessi hv. þd. ætlar að samþ. svo mikil viðbótarútgjöld úr ríkissjóði á þessu sviði, þá sé ég mér ekki annað fært en að leggja á móti þessu frv. í Nd. Eins og útlitið er nú, á þessu ári og því næsta, er ekki hægt að auka þannig útgjöldin, nema fullnægt sé þeirri skyldu að sjá fyrir tekjum í ríkissjóð á móti nýjum útgjöldum, en því er ekki að heilsa, meðan nokkur hluti þingsins tveir flokkar — telja sér ekki skylt að ætla ríkissjóði tekjur upp í þann tekjuhalla, sem þegar er sýnilegur.

Samkv. 6. gr. frv. er ennfremur ætlazt til, að ríkissjóður greiði sjúkrastyrki til hreppsfélaganna eftir 66. og 67. gr. fátækral. á sama hátt og hingað til, fram að þeim tíma, er lög þessi öðlast gildi, eða a: m. k. fyrri helming þessa árs. Og þó eiga uppbótargjöld til hreppsfélaganna samkv. þessu frv., ef að lögum verður, að greiðast fyrir allt árið 1932. Þetta út af fyrir sig hlýtur að auka kostnaðinn eða útgjöld ríkissjóðs á þessu ári um eigi minna en 40 þús. kr. Ég vildi því eindregið mælast til þess, að hv. þd. setti þrengri takmörk fyrir greiðslum á fátækraútgjöldum úr ríkissjóði í stað þess, sem fellt var niður úr frv. við 2. umr. 20% takmark yfir meðaltal fátækraútgjalda í landinu — og vænti, að hún samþ. brtt. hv. 3. landsk. á þskj. 614, um 15% takmark yfir meðaltal. Ég er sannfærður um, að ef hún verður samþ., þá er ástæða til að ætla, að það hafi mikla þýðingu fyrir framgang málsins á þessu þingi. Ég þykist vita, að þegar það upplýsist, hvað miklum kostnaðarauka þetta veldur fyrir ríkissjóð, þá verði Nd. ekki sérlega fíkin í að samþ. frv., eftir þeim undirtektum, sem þetta þing hefir yfirleitt gefið við fjármálum þjóðarinnar.

Um aðrar till. eða breyt., sem fyrir liggja í þessu máli, ætla ég ekki að ræða að svo stöddu, en legg höfuðáherzlu á þetta atriði, að fyllri takmörk séu sett fyrir greiðslum úr ríkissjóði til fátækraútgjalda.