03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2111 í B-deild Alþingistíðinda. (2411)

463. mál, fátækralög

Halldór Steinsson:

Við nánari athugun þótti mér gengið fulllangt við 2. umr. um þetta frv., að færa sveitfestistímann niður í 2 ár, og ekki sízt þegar jafnframt var ákveðið, að nægilegt væri, að menn hefðu eigi þegið sveitarstyrk á síðustu 2 árum áður en þeir vinna sveitfesti. Nú hefir hv. 1. þm. Reykv. flutt brtt. á þskj. 610 um þetta ákvæði í 1. gr. frv. og leggur til, að þetta verði aftur lengt upp í 10 ár, þannig að menn megi ekki hafa þegið sveitarstyrk síðustu 10 árin. Þetta tel ég aftur of langt farið til baka og legg til, að í staðinn fyrir „10 ár“ komi 4 ár. Það finnst mér hæfilegt tímabil, að fara þannig bil beggja, og leyfi ég mér að flytja skrifl. brtt. þess efnis.

Að því er snertir ummæli hæstv. fjmrh., að frv. hafi aukinn kostnað í fór með sér fyrir ríkissjóð, er það að segja, að þó að ég viðurkenni, að svo sé, mun ég halda mér við frv. eins og það var samþ. við 2. umr. og því greiða atkv. á móti brtt. þeirri, sem liggur fyrir frá hv. 3. landsk. við 4. gr., á þskj. 614.