03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (2412)

463. mál, fátækralög

Pétur Magnússon:

Hæstv. fjmrh. lét í ljós, að breyt. þær, sem gerðar hefðu verið á 4. gr. frv. við 2. umr., gerðu það að verkum, að hann treysti sér ekki til að stuðla að framgangi þess. Við 2. umr. var eins og kunnugt er fellt niður það ákvæði, að ríkissjóður taki þá fyrst þátt í greiðslu vegna sveitarþyngsla, er fátækraútgjöld hrepps fara 20% fram úr meðaltali. Ég ympraði á, að komið hefði til tals að jafna á milli hreppanna innan hverrar sýslu og á milli kaupstaðanna innbyrðis. Ef litið er á skýrslu þá, sem frv. fylgir, sem nær að vísu ekki yfir nema eitt ár, sest, að skipting fátækraútgjalda er geysimisjöfn meðal hreppa innan hverrar sýslu. Ef sýslunefndum væru sendar skýrslur þær, sem nú á að senda stjórninni, og fundið meðaltal innan hverrar sýslu, og þeir hreppar, sem væru fyrir ofan meðallag, fengju síðan endurgjald úr sýslusjóði; yrði það til þess, að útgjöld ríkissjóðs minnkuðu að mun frá því, sem til er ætlazt í frv. þessu, og yrðu e. t. v. minni en þau eru nú. Hv. 3. landsk. átti þessa uppástungu, og mér leizt vel á hana, en síðar dró hv. 3. landsk. sig til baka, og varð það til þess, að n. kom ekki fram með brtt. um þetta.

Ég vil nú beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh., hvort hann treysti sér ekki til að stuðla að framgangi frv. með þessum hætti. Ef hæstv. fjmrh. vildi fallast á þetta, vildi ég mælast til, að hæstv. forseti tæki málið af dagskrá að sinni, svo að hægt verði að koma með brtt.